Samfylkingartröll

Forsetaframbjóðandinn fyrrverandi í Hádegismóum er enn á flugi. Nú beinir hann spjótum sínum að Ólafi Þ. Harðarsyni, prófessor við Háskóla Íslands. Davíð segir Ólaf frægt Samfylkingartröll úr Hafnarfirði og ekki beysinn fræðimann. Ólafur segir það áberandi hvað ungar konur innan Sjálfstæðisflokksins hafi verið óhræddar við að svara Davíð fullum hálsi. „Á meðan margir aðrir hafa látið skammir Davíðs svona um langa hríð yfir sig ganga, þá standa þessar ungu konur, reynslulausu ungu konur og svara fullum hálsi,“ sagði prófessorinn í samtali við RÚV og bætti því við að síðustu árin hafi Davíð staðið málefnalega mun nær Miðflokknum en Sjálfstæðisflokknum.

NATO og VG

Flest áhugafólk um stjórnmál liggur nú yfir könnun sem Maskína gerði fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf Íslendinga til alþjóðasamstarfs. Í ljós kemur að Íslendingar eru mjög alþjóðasinnaðir. Um helmingur landsmanna er jákvæður gagnvart aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu en tæpur fimmtungur neikvæður. Það er ástæða til að vekja athygli á því að tæpur þriðjungur kjósenda Vinstri grænna er jákvæður gagnvart NATO. Er það jafnvel áhugaverðara í sögulegu samhengi en þau átta prósent Miðflokksmanna sem vilja ganga í ESB. [email protected]