Hér á landi höfum búið við traust opinbert heilbrigðiskerfi þar sem öll eiga sama rétt til þjónustu óháð efnahag og stöðu. Áhyggjuefni er hve langir biðlistar eru eftir aðgerðum, að fólk standi frammi fyrir því að leggja út í mikinn kostnað til að komast í aðgerðir utan almenna heilbrigðiskerfisins. Það eru fjárútlát sem sum okkar ráða einfaldlega ekki við, enda viljum við ekki samfélag þar sem samfélagssáttmáli um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu er rofinn, án aðkomu hins opinbera mun framboð af aðgerðum innan einkageirans því frekar nýtast efnafólki og ekki reynast sú blessun sem einhverjir horfa til.

Við sjáum í fjölmiðlum að stjórn­end­ur rík­is­rek­inna sjúkra­húsa ótt­ast að sjúkra­hús­in veikist ef sér­fræð­ing­ar fari í enn ríkara mæli til einka­rek­inna fyr­ir­tækja. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk óttast að samhliða aukinni útvistun læknisaðgerða til einkaaðila muni Landspítalinn og aðrar heilbrigðisstofnanir missa frá sér starfsfólk. Okkar helstu stofnanir búa nú þegar við alvarlegan mönnunarvanda en fram hefur komið að hér vanti m.a röntgenlækna, skurðhjúkrunarfræðinga og hjúkrunarfræðinga til þess að manna legudeildir, tóm legupláss og ónýttar skurðstofur. Það getur því orðið til að auka enn á vandann og lengja biðlista að missa gott starfsfólk úr opinberri starfsemi. Þá er vert að muna að vel mannaðar sjúkrastofnanir og fjölbreyttar aðgerðir eru grundvöllur þess að sjúkrahúsin okkar séu góðar menntastofnanir fyrir heilbrigðisstarfsmenn framtíðarinnar.

For­stjóri Land­spít­al­ans hefur varað við því að far­ið verði stjórn­laust í átt til einka­væð­ing­ar. Í mínum huga er ótækt að ráðast í frekari útvistun verkefna úr almenna heilbrigðiskerfinu til einkaaðila án stefnumarkand. ákvarðana sem lúta að því að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið. Það er ekki þjóðarvilji fyrir slíku. Í mínum huga mun sú vegferð að útvista í ríkara mæli aðgerðum til einkaaðila aðeins auka kostnað sjúklinga, kostnað ríkisins af rekstri heilbrigðiskerfisins og mönnunarvandann á okkar helstu sjúkrastofnunun. Fjármunir sem annars rynnu til aðgerða á tómum skurðstofum hjá opinberum heilbrigðisstofnunum renni til annars og dýrara kerfis utan þeirra. Það má vel semja við einkaaðila til skamms tíma á meðan hið opinbera kerfi nær vopnum sínum og til að stytta biðlista, en til lengri tíma verður að tryggja í hvívetna öflugt opinvert heilbrigðiskerfi, um það er þjóðarsátt. Engum hugnast að hér verði til nýtt kerfi byggt á einkavæðingu heilbrigðisþjónustu.