Hugmyndir um að rekstur samfélagsbanka hérlendis væri búbót fyrir heimilin eru óskhyggja. Slíkar tilraunir hafa verið reyndar: Annars vegar með rekstri sparisjóða og hins vegar Íbúðalánasjóði. Þær gengu ekki eftir. Sparisjóðir og Íbúðalánasjóður urðu að lúta í lægra haldi í samkeppni við einkabanka.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingkona Flokks fólksins, fór mikinn í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni á fimmtudaginn þar sem hún taldi að samfélagsbankar væru betur í stakk búnir til að þjóna samfélaginu. Í gagnrýni sinni á bankana tíndi hún til himinháar tölur án þess að setja þær í samhengi við umfang rekstrar, eigna og arðsemi. Stór banki getur hagnast um tugmilljarða en engu að síður skilað lítilli arðsemi. Í umræðu um rekstur þarf að kunna að setja fjárhæðir í rétt samhengi. Um árabil var arðsemi banka ekki nægileg.

Flokka má sparisjóði sem samfélagsbanka því þeir hafa fleiri markmið en að hámarka hagnað eins og til dæmis að styrkja svæðið sem þeir starfa á með ýmsum hætti. Þeir eru þó ekki góðgerðarstofnanir. Reksturinn verður að standa undir sér og sparisjóðir þurfa að hafa borð fyrir báru til að mæta áföllum í rekstri. Útlánastarfsemi er áhættusöm.

Hérlendis hafa sparisjóðirnir átt tvö sóknarskeið. Hið fyrra á 19. öld fram til stofnunar Íslandsbanka árið 1904 og hið síðara eftir afnám fjármagnshafta árið 1985. Blómaskeiðin eiga það sammerkt að á þeim tíma voru bankar ekki til staðar eða starfsemi þeirra var verulega heft. Sparisjóðirnir nutu því góðs af tómarúmi.

Fyrir nokkru var umræða um að breyta Landsbankanum úr ríkisbanka í samfélagsbanka. Það er ólíklegt að hann myndi í þeirri mynd geta skákað einkabönkum í samkeppni um viðskipti. Það er enn fremur mikilvægt að hafa í huga að ríkisrekin útlánastarfsemi til að ná félagslegum markmiðum hefur reynst illa. Eigið fé Íbúðalánasjóðs er neikvætt um ríflega 180 milljarða og ekki eru horfur á að staðan muni batna.