Þegar hugbúnaður er hannaður á sér stað prófunarferli. Fólk vill jú kerfi sem virkar. Við notkun búnaðarins koma alltaf í ljós vankantar. Þess vegna er unnið að þróun og úrbótum samhliða notkun svo að hægt sé að gefa út uppfærslur sem taka mið að tækniumhverfi hvers tíma.

Þessi prófunarleið á við um samfélög líka. Ef mér reiknast rétt til á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna árið 2019 erum við í miðri fjórðu uppfærslu á áhrifum femínisma á samfélagið. Samfélag 4.0. Það er auðvitað merkilegt að þrátt fyrir þrjár risauppfærslur sé enn ekki búið að eyða kynjamisrétti og kvenfyrirlitningu sem eru þó svo augljóslega slæmar kerfisvillur.

Með fyrstu uppfærslunni fengu konur kosningarétt. Fleiri borgaraleg réttindi komu svo í minni uppfærslum; ég held að það hafi verið í 1.5 sem þeim var tryggður jafn eignaréttur á við karla. Með Samfélagi 2.0 var sett fram krafa um jafnrétti á vinnumarkaði og umræðan um kynferðislegt ofbeldi gegn konum opnuð. 2.4. færði okkur skilgreiningar á borð við kynferðislega áreitni og tilraunir til að eyða þeirri villu. Með 3.0 þurftu konur að „halla sér fram“ til að sækja milliuppfærslurnar sjálfar. Konur sem hölluðu sér nægilega gátu þannig fengið launahækkun til samræmis við karla í sömu stöðu.

Sumir notendur telja óþarft að fjárfesta í 4.0. uppfærslunni; það séu engar villur í kerfinu, enda komið alveg nóg jafnrétti. Svona stöðnun er ekki vænleg til árangurs. Það er svona álíka og að ætla að nota iPhone 2 til að komast á samfélagsmiðla í símanum (vísbending: það virkar ekki). Notendur vilja breytt viðhorf, útrýmingu kynferðisofbeldis og jöfn tækifæri fyrir alla óháð kyni. Það er vonandi að Samfélag 4.0 bjóði upp á þetta.