Eitt besta nýyrði sem ég hef kynnst að undanförnu, og jafnvel yfirleitt, er hugtakið „samdaunasýki“. Hér er dálítið sérkennilegur sjúkdómur á ferðinni, sem fólk gæti haft gaman af að velta fyrir sér, nú á þessum tímum sjúkdóma og hamfara. Samdaunasýki sem hugtak er mikið notað í umhverfisfræðum og gegnir lykilhlutverki í nýlegu riti Ólafs Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem ber heitið „Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa“. Samdaunasýki lýsir í stuttu máli þeirri tilhneigingu fólks að verða samdauna bágbornum veruleika, eins og því að dýrastofnar hafi hrunið eða jarðvegur hafi fokið burt. Örfoka land verður nýja viðmiðið og nýjar kynslóðir telja að svona hafi landið alltaf verið. Þær gera sér ekki grein fyrir því að í raun versnaði ástandið mjög. Landið var jú einu sinni skógi vaxið, en það er gleymt. Á ensku er þetta kallað „shifting baseline syndrome“. Ef ekki nyti við skapandi nýyrðasmiða eins og Ólafs — eins og blessunarlega hefur ætíð verið raunin á Íslandi — væri hugtakið væntanlega þýtt sem „heilkenni breyttra grunnviðmiða“, sem er afar óþjált. Samdaunasýki er mun betra. Það stuðlar.

Þetta er raunar svo lýsandi hugtak og vel smíðað að undir eins blasir við hvernig hægt er að greina alls konar tilhneigingar í mannlegu samfélagi sem samdaunasýki. Fólk venst slæmu líkamlegu ástandi sínu eða niðurdrepandi stemmingu á vinnustað. Borgarbúar verða samdauna jarðskjálftum. Kjósendur venjast furðulegri og áður óþekktri hegðun stjórnmálafólks eins og dæmin sanna. Þegar verst lætur er samdaunasýki allsvakalegur faraldur sem getur lagt heilu þjóðirnar á örskammri stund. Í umhverfismálum geta afleiðingarnar orðið mjög alvarlegar fyrir heilu vistkerfin. Vegna samdaunasýki eru þau ekki endurreist, eins og raunin er með íslenskan gróðursnauðan jarðveg, sem út af yfirgripsmikilli samdaunasýki þykir jafnvel bara smart svona ónýtur. Í öðrum málaflokkum gæti samdaunasýki til dæmis leitt til þess að alls konar sjálfsögð mannréttindi séu ekki sjálfsögð lengur. Slíkt hefur gerst meðal þjóða.

Vík ég þá að því. Ég hef mikinn skilning á nýlegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og sóttvarnayfirvalda vegna mögulegrar fjórðu bylgju kórónuveirusmita. Þetta er það eina rétta í stöðunni, að skella í lás og allir heim að slaka. Nú gildir að kæfa þennan skratta — þetta skæða afbrigði — í fæðingu. Auðvitað er það glatað að þetta ófremdarástand sé ekki búið og annað árið í röð verði páskarnir einhvers konar netflix- og náttfatahátíð, en svona er einfaldlega ástandið. Kannski er hægt að endurnýta lagið góða um að ferðast innanlands, sem spilað var í fyrra og Helgi Bjöss á hugsanlega einhverja fleiri slagara uppi í erminni. Við komumst í gegnum þetta, þótt vissulega reyni á langlundargeðið.

En það er þetta með samdaunasýkina. Í þessum aðstæðum þar sem síendurtekið þarf að svipta fólk réttindum, eins og að fá að ferðast milli landa eða hitta aðra eða halda fermingarveislur, er mjög mikilvægt að við borgararnir, yfirvöld — og gott ef ekki sóttvarnayfirvöld — gæti mjög að uppgangi mögulegrar samdaunasýki. Samdaunasýkin gæti orðið skæð ef þessu ástandi síendurtekinna, en skiljanlegra, takmarkana fer ekki að ljúka einhvern tímann bráðum. Í dag á dóttir mín til að mynda afmæli. Það eru tvö ár síðan hún gat haldið almennilega upp á afmælið. Hvenær ætli fólk gleymi hvernig var að halda afmæli án tveggja metra reglu?

Eftir því sem tíminn líður verður meira áríðandi að njóta þeirrar fullvissu, og heyra helst á henni hamrað, að þessar takmarkanir eru auðvitað undantekning, fráhvarf frá flestu því sem opið, frjálst samfélag eins og Ísland á að venjast. Svona má aldrei vera sjálfsagður hlutur, eins og hvert annað hundsbit, eða talið fínt eins og skemmdur jarðvegur.

Sem betur fer búum við Íslendingar vel hvað þetta varðar, þegar kemur að ráðafólki. Traust ríkir, en á þetta mun enn reyna. Af sjónarhóli mannréttinda eru líkur á að tímarnir fram undan verði giska krefjandi, og kannski enn meira krefjandi en áður. Það gengur hægt að bólusetja. Smám saman er að verða til sá veruleiki að sumir eru bólusettir og aðrir ekki. Það glittir í það, að þjóðfélagið verði um hríð þannig að sumir megi gera það sem þeir vilja, en aðrir ekki. Vottorð verður forsenda grunnréttinda og af ástæðum, sem fólk ræður ekki við, hafa sumir ekki slík vottorð. Eftir því sem óheppilegt ástand af þessu tagi, þessi tvískipting samfélagsins dregst á langinn, gæti samfélagslegur órói vaxið. Við því er kannski ekkert að gera. Það er kannski erfitt að sjá fyrir sér hvernig á að haga málum öðruvísi. En á ákveðinn hátt má þetta samt ekki vera auðvelt. Hér — á nákvæmlega þessum stað í umræðunni — er mikilvægt að staldra við og hugsa með sjálfum sér:

„Er ég nokkuð kominn með samdaunasýki?“