Lífs­skil­yrði stórs hluta lands­manna hafa gjör­breyst á undan­förnum mánuðum. Aldrei fyrr hafa svo margir misst vinnuna á stuttum tíma, aðrir hafa misst heilsuna og enn aðrir búa við gjör­breyttar að­stæður. Bilið á milli ör­orku­líf­eyris og lág­marks­launa heldur á­fram að breikka og tæp­lega 6.000 eldri borgarar þurfa að lifa undir fá­tæktar­mörkum. Fólki sem fær fjár­hags­að­stoð til fram­færslu fjölgar hratt og hjálpar­stofnanir hafa vart undan að að­stoða þau sem ekki eiga fyrir nauð­synjum.

Á sama tíma er annar hluti sam­fé­lagsins sem hefur það bara nokkuð gott. Laun hafa hækkað og að­gangur að ó­verð­tryggðum í­búða­lánum með sögu­lega lágum vöxtum hefur það í för með sér að dýrar í­búðir seljast hraðar en áður.

Á tímum sem þessum er gríðar­lega mikil­vægt að hafa það stað­fasta mark­mið að auka jöfnuð og jafn­ræði meðal fólks og að við komum úr þessum erfiða tíma­bundna á­standi án þess að ó­jöfnuður aukist. Ó­jöfnuður er enda ekki bara ó­rétt­látur heldur einnig skað­legur sam­fé­laginu öllu. Höfum einnig hug­fast, að í síðustu kreppu, í kjöl­far banka­hrunsins, tókst ríkis­stjórn jafnaðar­manna að auka jöfnuð á Ís­landi, ó­líkt flestum öðrum ríkis­stjórnum kreppu­hrjáðra landa. Það er því vel hægt, ef pólitískur vilji er til staðar.

Það er margt hægt að gera til að auka jöfnuð og það er mikil­vægt að hið opin­bera nýti öll verk­færi sín til þess núna. Nú reynir á okkur sem stýrum sveitar­fé­lögum og ríki að vera sam­taka um að­gerðir til að styðja við fólk og fjöl­skyldur í vanda og fjár­festa í grænni og rétt­látari fram­tíð. Nú er ekki lag að ráðast í hag­ræðingar­að­gerðir sem fela í sér upp­sagnir starfs­fólks eða minni þjónustu, um það erum við sam­mála þó sjálf­sagt sé að hag­ræða þar sem það er hægt með aukinni tækni og hag­sýni.

Sveitar­fé­lögin þurfa nú meira en nokkru sinni fyrr að veita öfluga nær­þjónustu til þeirra tug­þúsunda fjöl­skyldna um allt land sem eru að upp­lifa erfiðra tíma. Kvíða, of­beldi, at­vinnu­missi, fjár­hags­erfið­leika, veikindi, heimilis­leysi og svo fram­vegis. Á sama tíma hafa tekjur sveitar­fé­laga dregist veru­lega saman og öfugt við ríkið þá hafa sveitar­fé­lög ekki margar leiðir til að fá auknar tekjur, taka hag­stæð lán eða fara í sveiflu­jafnandi að­gerðir. Það er hagur ríkis­sjóðs að að­gerðir sveitar­fé­laga vinni ekki á móti efna­hags­legum örvunar­að­gerðum sem nú er mikil þörf á.

Á­ætlað er að við­bótar fjár­þörf sveitar­fé­laga sé um 50 milljarðar á næstu tveimur árum. Verði efna­hags­legum áhrifum af far­aldrinum al­farið velt yfir á fjárhag sveitar­fé­laganna með stór­aukinni lántöku eða niður­skurði, myndi það hafa skelfi­legar af leiðingar fyrir lífs­skil­yrði fólks og lang­varandi og lamandi áhrif á starf­semi sveitar­fé­laga. Skuld­sett sveitar­fé­lög fjár­festa ekki í nýjum vegum, skólum eða öðrum inn­viðum og þannig verða sam­fé­lögin minna að­laðandi og verr í stakk búin til að veita góða þjónustu. Nú þarf fjár­festingu í grænum lausnum og at­vinnu­skapandi verk­efnum sem varða veginn til fram­tíðar. Nú þarf kröftugt skóla­starf og enn betri þjónustu við aldraða, fatlaða, heimilis­lausa og fólk sem er í vanda statt vegna á­standsins. Það er því eðli­legt og skyn­sam­legt að ríkið styðji við sveitar­fé­lögin með kröftugum hætti, þannig að á­fram sé hægt að veita mikil­væga nær­þjónustu og fjár­festa í fram­tíðinni með þeim.

Sveitar­fé­lögin móta rammann utan um okkar dag­lega líf. Þegar fólk velur sér bú­setu horfir það til þjónustu sveitar­fé­laga. Það er hagur okkur allra að um allt land séu öflug sveitar­fé­lög sem bjóði þjónustu og að­stæður til að þar þrífist spennandi vinnu­markaður, menning og góð skil­yrði til að lifa heilsu­sam­legu og inni­halds­ríku lífi. Þannig sam­fé­lög þurfum við á­fram að byggja upp, hvað sem CO­VID líður, því við erum í sam­keppni um fólk og við viljum að unga fólkið velji Ís­land. Án öflugs stuðning ríkisins munu mörg sveitar­fé­lög ekki ráða við það mikil­væga verk­efni, ó­jöfnuður eykst og Ís­land dregst aftur úr. Það má ekki gerast.