Okkur virðist finnast eðlilegt að hér þurfi fjölmargar stofnanir til hjálpar konum eftir kynbundið ofbeldi. Hvers vegna þarf í svo fámennri jafnréttisparadís neyðarmóttökur vegna nauðgana, Stígamót, Kvennaathvarf, Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð, Sólstafi, Aflið, Drekaslóð og Rótina? Þykir okkur eðlilegur fórnarkostnaður við að reka samfélag að þúsundir kvenna séu í endurhæfingu eða öryrkjar í kjölfar kynbundins ofbeldis? Þá eru ekki nefndar óteljandi komur á bráðamóttökur og heilsugæslustöðvar, til sálfræðinga, sjúkraþjálfara og á meðferðarstofnanir. Þúsundir kvenna hafa verið gerðar ábyrgar fyrir ofbeldi gerenda sinna. Skömm þeirra hefur verið svo dyggilega samfélagslega viðhaldið að það mátti þakka ef þær leituðu sér hjálpar. Hvað þá að þær kærðu, enda hverfandi líkur á að það leiddi til nokkurs annars en drusluskömmunar í réttarsal og meiri útskúfunar.

Þetta er ekki eðlilegt. Horfumst í augu við hve ríkulega gerendur hafa getað treyst á þöggun, skömm og samfélagslega drusluskömmun. Þeir hafa getað reitt sig á að körlum sé frekar trúað en konum. Í krafti samstöðu hafa nú þolendur hins vegar varpað frá sér þeirri gríðarþungu og kæfandi byrði sem skikkja skammarinnar var. Ofbeldismenn geta ekki lengur treyst á skömm kvenna vegna kynferðisbrota. Drusluskömmun er ekki lengur flugbeitt sverð. Kenningin um „skrímslin“ er í alvöru fallin. Þetta eru venjulegir menn. Þeir eru feður, vinir, bræður og synir. Sumir dýrkaðar hetjur og frægir menn. Og þjóðin á bágt eftir að gerendur urðu sýnilegri. Á meðan mörg virðast ekki hafa áhyggjur af heilsu og afdrifum þúsunda þolenda, þykir slæmt að upp um kynferðisbrot manna komist, að þeir missi mögulega forréttindi. Er ekki athyglisvert að sjá að stór hluti þjóðarinnar segist trúa þolendum nauðgana, allt þar til þolendur segja hver gerandinn var? Þá frýs allt og við kunnum þetta ekki. Þjóðin vill ekki að neinn sé hann. Leyfar af skömminni segja til sín og leyfar af því að karlmaður flokkist skör hærra en konan segja líka til sín.

Við erum öll jöfn. Það hefur enginn rétt á að beita aðra manneskju ofbeldi. Til að telja sig í rétti til að níðast á annarri manneskju þarf viðkomandi að líta á sig sem æðri. Það þarf kvenfyrirlitningu til, það þarf foréttindablindu og oft er það minnimáttarkennd sem stýrir. Kynferðisáreiti og nauðganir eru ekki náttúruhamfarir. Það eru gerendur sem eru ábyrgir og út frá því þarf að vinna, með vitundarvakningu, bættu dómskerfi og öflugum forvörnum. Áfall þolenda við nýlegu vali á mönnum til hæstu ábyrgðar í ráðuneyti dómsmála var fyrirséð. Hlustum á hvers vegna og virðum þá gagnrýni, því nú er í alvöru komið að því að reynsla og rödd þolenda skipti máli og hafi vægi.

Að standa hjá er meiri stuðningur við ríkjandi nauðgunarmenningu heldur en við réttlátar breytingar til framtíðar. Látum muna um okkur hvert og eitt í átt að öruggara og betra samfélagi. Við þurfum öll að líta í eigin barm og hugsa, hvað get ég gert? Höfum okkur upp úr þessum gömlu hjólförum sem liggja augljóslega ekki í rétta átt. Ef svo hefði verið, þá værum við löngu komin á áfangastað réttlætis og jafnréttis.