Upp úr seinni heimsstyrjöldinni beitti stjórnmálafólk í Evrópu sér fyrir öflugra alþjóðsamstarfi og á sama tíma var mikið rætt um aukið Norðurlandasamstarf. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar árið 1945 og Evrópuráðið fylgdi í kjölfarið en fyrstu skref voru þar með tekin að stofnun Evrópusambandsins. Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 en það gerðist ekki þrautalaust.

Norræna þingmannasambandið var forveri Norðurlandaráðs, stofnað árið 1906. Það var eins konar svæðisbundin undirsamtök Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU). Ísland átti aðild að Norræna þingmannasambandinu frá 1926. Í tengslum við Alþingishátíðina 1930 var þingið í fyrsta sinn haldið á Íslandi. Síðan stóð til að halda þingið aftur á Íslandið árið 1940 en því var auðvitað aflýst. Það eru því 80 ár liðin síðan aflýsa varð norrænu þingi á Íslandi

Finnar bætast í hópinn

Allt fram til ársins 1949 hafði stjórnmálafólk reynt að skapa skandínavískt varnarbandalag en það tókst ekki þar sem Danmörk, Ísland og Noregur kusu aðild að varnarbandalagi vestrænna ríkja, Norður-Atlantshafsbandalaginu NATO. Í lok fimmta áratugar síðustu aldar gerðu Danmörk, Noregur og Svíþjóð tilraun til að stofna samþætt tolla- og efnahagsbandalag en þær tilraunir tókust ekki. Eftir þessar misheppnuðu tilraunir dró þó til tíðinda árið 1951 þegar Hans Hedtoft, forsætisráðherra Danmerkur, lagði fram á fulltrúafundi Norræna þingmannasambandsins að stofnaður yrði vettvangur þar sem norrænir þingmenn hittust reglulega til samráðs með norrænum stjórnvöldum. Úr varð að Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð samþykktu tillöguna árið 1952.

Fyrsta þing ráðsins var haldið þann 13. febrúar árið 1953 í Kristjánsborgarhöll í Danmörku og var Hans Hedtoft kosinn fyrsti forseti ráðsins. Finnland slóst í hópinn þremur árum eftir stofnun ráðsins og þó að þeir hafi ekki tekið formlega þátt fyrstu árin voru ákvæði í reglum ráðsins þess efnis að fulltrúar finnskra stjórnvalda og finnska þjóðþingsins gætu tekið þátt ef þeir óskuðu þess. Þar með var norræni hópurinn fullskipaður.

Samstillt átak skilar árangri

Formennskuár Íslands í Norðurlandaráði hefur verið óvenjulegt, en lausnamiðuð nálgun og tæknin hefur gerir ráðinu kleift að halda úti öflugu samstarfi. Mæting ráðherra á fundi Norðurlandaráðs í þingvikunni var mjög góð, umræðurnar líflegar og gagnlegar að okkar mati. Einnig var afar ánægjulegt og ákveðin viðurkenning á mikilvægi Norðurlandaráðs í alþjóðlegu samhengi, að Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom á fund Norðurlandaráðs og forsætisráðherra Norðurlanda.

Við getum alltaf gert betur

Á fundum Norðurlandaráðs og ráðherra kom í ljós að ráðið taldi að norrænt samstarf hefði brugðist í kórónuveirufaraldrinum en ráðherrar voru á öndverðum meiði. Norðurlandaráð hefur samþykkt stefnu um samfélagslegt öryggi og telur að þörf sé á umbótum um aukinn sameiginlegan viðbúnað. Heimurinn er síbreytilegur og því hlýtur það að vera hlutverk norræns samstarfs að endurskoða sig í sífellu og leita leiða til að styrkja samstarfið enn frekar og ekki síst að vera til fyrirmyndar á heimsvísu á þeim sviðum sem Norðurlönd standa sterk. Saman erum við alltaf sterkari.

Silja Dögg Gunnarsdóttir er forseti Norðurlandaráðs.

Oddný Harðardóttir er varaforseti Norðurlandaráðs.