Vinur minn, sem á og rekur gamalgróið fyrirtæki, leitaði til mín um daginn með áhyggjur af starfsandanum í fyrirtækinu. Ástæðan er að mórallinn í fyrirtækinu hefur versnað mjög undanfarin ár. Hann sagði launakostnað of mikinn og sérstaklega væri einn starfsmaður orðinn fyrirtækinu mjög dýr. Sami starfsmaður væri líka erfiður í samskiptum. Einn daginn væri hann glaður en næstu daga gæti hann verið þungur og erfiður. Verst væri þó hvernig það drægi allan þrótt og gleði úr samstarfsfólkinu þegar þannig stæði á hjá honum.

Mér fannst svarið við þessum vanda augljóst og spurði hvort ekki væri réttast að segja þessum starfsmanni upp strax. Viðkomandi væri greinilega ekki skila sínu og hefði slæm áhrif á rekstur og starfsanda. Vinur minn horfði á mig í forundran og sagði reiður: ,,Nei alls ekki, það kemur ekki til mála, hann hefur unnið lengi hjá okkur og er órjúfanlegur hluti af fyrirtækinu.“ Samtal okkar varð ekki lengra.

Sumir eru í sömu stöðu og þessi vinur minn. Vita vel hver vandinn er en takast ekki á við hann. Þeir eru því með kóng Bakkus á háum launum í fyrirtæki sálarinnar. Hjá mörgum gengur það samstarf vel þó að kostnaðurinn sé frekar hár. En hjá þeim sem eru í sömu stöðu og vinur minn er gott að horfa á þetta út frá köldu raunsæismati. Þegar starfsmaður skilar litlu og lélegu framlagi, hefur neikvæð áhrif á starfsanda, dregur úr sjálfstrausti vinnufélaga, eykur kvíða, depurð og þunglyndi, þá er hið eina rétta að láta hann fara. Slík ákvörðun er erfið en hún er undantekningarlaust rétt og skilar sér í betri rekstri, móral og um leið betra lífi á vinnustaðnum.