Útboð ríkisins á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka á dögunum var vel heppnað. Það tókst að gæta jafnvægis á milli verðs og magns. Verðið var 60 prósentum hærra en í frumútboði í júní þrátt fyrir að mikil óvissa ríki í efnahagslífinu og því um að gera að sæta færis.

Hefði hlutafjárútboðið verið stækkað enn frekar – eins og sumir fagfjárfestar kölluðu eftir með það fyrir augum að hreppa fleiri hlutabréf í bankanum – hefði verðið að öllum líkindum orðið lægra. Að minnsta kosti ef horfa á til dreifðs eignarhalds, eins og Bankasýslan lagði upp með, en ekki láta fáeina fjárfesta taka bróðurpartinn af bréfunum.

Vandi útboðsins var að enginn af hálfu seljanda, hvort sem litið er til Bankasýslunnar, þingmanna eða verðbréfafyrirtækja, steig fram og ræddi útboðið í þaula opinberlega til að almenningur áttaði sig á söluferlinu. Fáeinar fréttatilkynningar voru í raun látnar nægja. Það hefði til dæmis mátt ræða betur hvernig skerðingum var háttað, kosti og galla sölu til dreifðs hóps fjárfesta og að salan yrði framkvæmd í einum hvelli til að hafa sem minnst áhrif á verð á hlutabréfamarkaði.

Útboðsfyrirkomulagið við söluna hefur ekki oft verið notað á Íslandi en er yfirleitt beitt þegar selja á stóran hlut í skráðum félögum alþjóðlega. Þekkt er að bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic nýtti hana við sölu á stórum hlut í Arion banka og Bandaríkin selja ríkisskuldabréf með þessum hætti. Um er að ræða svokallað hollenskt útboð. Í því er algengasta tilboðinu tekið til að reyna að endurspegla markaðsvirðið og valda sem minnstu róti á markaðnum. Það hefur í för með sér að allir kaupendur fá bréfin á sama verði, jafnvel þótt sumir hafi boðið hærra eða lægra.

Í slíkum útboðum, þar sem mikið magn af bréfum flæðir á markaðinn á fáeinum klukkustundum, er alla jafna útboðsafsláttur. Hann var fjögur prósent í tilviki Íslandsbanka.

Fjármálafyrirtækið STJ Advisors, ráðgjafi Bankasýslunnar, vakti athygli á að í útboðum hjá skráðum félögum í Evrópu í ár hafi afslátturinn numið ríflega sex prósentum en eftir innrás Rússa í Úkraínu hafi óvissa aukist og afslátturinn því numið ríflega átta prósentum.

Stóra myndin er að útboð Íslandsbanka gekk vel og verðið sem fékkst hagstætt. Ríkið er ekki lengur meirihlutaeigandi að bankanum. Því ber að fagna. Vonandi gengur áframhaldandi sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka hratt og örugglega fyrir sig.