Fyrir sextíu þúsund árum átti sér stað stefnumót sem veldur nú stórtjóni í samtímanum. Karl og kona hittust á förnum vegi í Miðausturlöndum og áttu einnar nætur gaman. Síðastliðin tvö ár hafa mörg hundruð þúsund manns látið lífið vegna skyndikynnanna.

Vísindamenn segjast hafa uppgötvað erfðafræðilegt frávik sem mörg okkar bera og rekja má til rómantískrar kvöldstundar homo sapiens og neanderdalsmanns. Frávikið tvöfaldar líkurnar á að einstaklingur veikist alvarlega af Covid-19. Er talið að það hafi kostað allt að milljón manns lífið í kórónaveirufaraldrinum.

Sessa forsætisráðherrastólsins

„Sá sem verður fyrir ofbeldi fær sjálfan sig á heilann.“ Tilvitnunin er úr leikriti Elísabetar Jökulsdóttur, Blóðuga kanínan. „Ég var voða hrædd við þessa setningu því ég hélt ég yrði dæmd af öllum sem eru að vinna í sjálfum sér,“ sagði Elísabet í nýlegu viðtali við Stundina, en hún hefur sjálf þurft að takast á við afleiðingar ofbeldis. „Mín reynsla er að ég er búin að vera með sjálfa mig á heilanum árum saman.“

Viðleitni Elísabetar til að brjótast undan oki eigin hugar olli áhuga hennar á virkjanamálum. Hún vill að Ísland verði stóriðjulaust. „Það er bara af því að ég þakka hálendinu fyrir það hvað það hefur gefið mér. Mér finnst ég standa í þakkarskuld við íslenska náttúru. Þá hætti ég að festast í sjálfri mér, af því að þetta landslag hrífur mann svo.“

Upplifun Elísabetar er studd vísindalegum rökum. Nýverið var gerð rannsókn á heilastarfsemi fólks eftir níutíu mínútna göngu úti í villtri náttúru annars vegar og á götum borgar hins vegar. Þau sem gengu úti í náttúrunni upplifðu meiri vellíðan í kjölfar göngutúrsins. En ekki nóg með það. Í heilaskanna sást að starfsemi snarminnkaði á svæði í heilaberki sem stýrir sjálfsmiðaðri áráttuhugsun sem talin er stuðla að þunglyndi.

Náttúran frelsar okkur úr viðjum hugans. Við launum náttúrunni með því að finna nýjar leiðir til að beisla hana. Umdeildur þriðji áfangi rammaáætlunar var samþykktur á Alþingi í vikunni. Sú ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna að færa Héraðsvötn og Kjalölduveitu úr verndarflokki í biðflokk vakti hörð viðbrögð. Stjórnarandstaðan sakaði ríkisstjórnina um pólitísk hrossakaup. Einkum beindist gagnrýnin að Vinstri grænum. „Hvar er græna hjartað í hreyfingunni sem stofnuð var í kringum náttúru- og umhverfisvernd?“ spurði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar. „Hvers virði er það að sitja í öndvegi við ríkisstjórnarborðið ef völdin sem því fylgja eru ekki nýtt?“ spurði þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir.

„Ef stefnumót homo sapiens og neanderdalsmannsins hefði mislukkast hefði kórónaveirufaraldurinn farið mun betur og hundruð þúsunda mannslífa bjargast,“ segir James Davies, prófessor í erfðamengjafræði við Oxford háskóla, sem svipti hulunni af hinum örlagaríku skyndikynnum. Hann segir afleiðingar stefnumótsins dæmi um fiðrildisáhrifin (e. butterfly effect), lítið atvik í flóknu kerfi sem geti haft miklar og ófyrirséðar afleiðingar annars staðar í kerfinu; eins og ef fiðrildi blakaði væng í Brasilíu og ylli skýstróki í Texas.

Villt náttúran lægir öldurót mannshugans. Tvær sálir hittast og afleiðingarnar koma fram sextíu þúsund árum síðar. Við tilheyrum vistkerfi, fortíð og framtíð flóknum böndum. Vinstri græn kunna að telja sig fórna litlu fyrir mjúka sessu forsætisráðherrastólsins. En hver veit hvar gárur gjörða þeirra mun bera að strönd?

VG selur nú vel valin vatnsföll og sál sína. Svo kann þó að vera að þau selji svo miklu meira. Við spyrjum að leikslokum – eða eftir sextíu þúsund ár.