Munið þið eftir drengnum Bastian sem las töfrabókina um hetjudáðir Atreyus sem geystist um á baki risahvuttans Falkor? Allt undir ljúfum tónum Limahl. Mér fannst Sagan endalausa stórkostleg kvikmynd en þegar ég horfði á hana aftur, þrjátíu og sex árum síðar og þá með börnunum mínum tveimur, hafði myndin elst hræðilega. Þá fyrst leið mér eins og hún væri endalaus. Um svipað leyti og börnin horfðu á Bastian þá var önnur saga að hefjast, sem einnig virðist nú ætla að verða endalaus.

Fyrstu Covid-smitin kölluðu á harðar aðgerðir sem takmörkuðu verulega frelsi fólks. Allt var þetta fyllilega skiljanlegt enda var óvissan algjör. En eftir því sem Covid-misserunum hefur fjölgað þá hafa stjórnvöld reynst treg til að sleppa tökunum, sem þau sögðu að væru tímabundin. „Brátt fáið þið frelsið ykkar aftur.“ En svo er dregin ný lína í sandinn.

Sagt er að engar ráðstafanir ríkisstjórna séu eins varanlegar og þær tímabundnu. Í sögunni hafa valdhafar verið tregir til að gefa eftir völd sín og veita fólki frelsið, sem það eitt sinn hafði. Það virðist alltaf vera einhver ný mikilvæg ástæða fyrir frekari höftum.

Alls hafa 35 Covid-smitaðir látist frá upphafi, þar af aðeins sjö einstaklingar undir sjötugu. Til samanburðar létust 28 manns úr inflúensu árin 2017 og 2018. Sem sagt, svipaður fjöldi á svipað löngu tímabili. Nú eru nær allir bólusettir og 99,5% þeirra sem smitast og eru bólusettir veikjast ekki alvarlega. Þrátt fyrir þetta, með vísan til smittalna og vanbúins spítala, er frelsinu haldið frá okkur og við hlýðum í þeirri von um að fá það bráðum aftur.