Ég er yfirleitt ósammála dómum um gamanmyndir. Þær gamanmyndir sem ég emja af hlátri yfir fá nánast undantekninglaust glataða dóma. Ég kýs að láta þetta ekki hafa áhrif á mig. Ég hlæ samt.

Nýjasta dæmið um þessa gjá milli mín og gagnrýnenda snýst um hina bráðskemmtilegu, að mínu mati, kvikmynd Eurovision Song Contest - The Story of Fire Saga. Tónlistin í myndinni er meira smitandi en kórónaveiran. Þegar ég skrifa þetta er ég að sjálfsögðu með lagið Volcano Man á heilanum, sem er ein sigurstranglegasta leiðin, fyrir utan Double Trouble, til að hafa ekki Jaja Ding Dong á heilanum. Einstaka sinnum dett ég í Lion of Love og fæ taugaveiklunarkjánahrollshláturskast.

Myndin fjallar sem kunnugt er um músíkalst par á Húsavík sem á sér þann draum æðstan að taka þátt í Júróvisjón. Draumurinn rætist. Þess hefur gætt að erlendir menningarrýnar sjái sig knúna til að taka upp hanskann fyrir íslenskt mannlíf, sögu og menningu í dómum sínum um myndina. Menningarritstjóri BBC, Nick Gompertz, gaf myndinni til dæmis falleinkunn vegna þess meðal annars að hann taldi að myndin af Íslandi sem þarna væri dregin upp væri of einföld og í raun ósönn. Ísland væri margbrotið samfélag, stútfullt af sköpun. Listamenn eins og Ragnar Kjartansson og Björk Guðmundsdóttir væru dæmi um það hvað Íslendingar væru á háu stigi menningarlega og myndin væri því engan veginn sanngjörn.

Grín er grín

Mér finnst gaman að lesa gagnrýni og mér finnst gaman að upplifa hvað skoðanir geta verið ólíkar. Það er líka mikilvægt að minna sig á að skoðun gagnrýnanda er bara skoðun einnar manneskju, en ekki afstaða miðils, félagasamtaka, þjóðríkja eða stefna löggjafarþings. Og þegar kemur að kvikmyndum eins og þessari er framtíð jarðar sjaldnast undir og óþarfi að fara á límingunum þótt skoðanir séu skiptar.

Og þó. Mér finnst viss þráður hér æði bitastæður. Í kjölfar myndarinnar um þau Lars og Sigrit frá Húsavík við Skjálfanda hefur þess semsagt gætt í erlendum miðlum að fólk móðgist fyrir hönd Íslendinga. Við séum ekki svona. Mér finnst það mergjuð umræða.

Í fyrsta lagi. Þetta element. Að móðgast fyrir hönd annarra. Slíkt endar alltaf úti í skurði. Á ákveðinn hátt finnst mér eiginlega móðgandi að upplifa það að einhver haldi virkilega að ég sem Íslendingur sé móðgaður yfir því að Will Ferrell fjalli ekki um menningarstig Íslendinga, nýjustu myndlistarsýningar og þess háttar, á raunsannan hátt í gamanmynd sinni. Hvers lags týpa þyrfti ég að vera til að gera slíka kröfu? Ætti ég að móðgast, myndi ég líka frekar móðgast yfir því að einhver teldi virkilega að ég teldi að fólk héldi að mynd Ferrels drægi upp sanna mynd af Íslendingum og að ég væri stressaður út af því. Ég held að maður þurfi að vera ákaflega viðkvæmur til að hafa slíkar áhyggjur. Hafa ber í huga að þetta er jú grínmynd en ekki heimildarmynd. Flestir kunna að gera þennan greinarmun, þótt stundum vilji hann gleymast. Grín er grín. Will Ferrel er að djóka.

Husavik

Eins og staðan er í dag og miðað við það hvernig ástandið er víða myndi maður satt að segja vilja óska þess að fleiri væru að djóka, í stað þess að vera fúlasta alvara með fáránlegu framferði sínu.

En hvað um það. Í öðru lagi. Hver væri sönn mynd af Íslendingum, ef út í það er farið? Í myndinni eru Íslendingar einhvers konar sambland af veiðimönnum, jólasveinum og álfum sem drekka mikinn bjór. Á ákveðinn hátt er það ekki alveg rétt, vissulega, og það má taka undir með Nick Gompertz, að margir Íslendingar hafa afrekað margt annað og merkilegra, ekki síst í menningu og listum. En svo er líka hitt: Sönn mynd drægi væntanlega einnig fram hvað þessi þjóð getur líka verið átakanlega mikið úti á þekju.

Á meðan kraftballaðan Husavik fer sigurför á tónlistarveitum og dregur athygli heimsbyggðarinnar að þessu fallega sjávarþorpi við Skjálfandaflóa — með tilheyrandi möguleikum, væntanlega, á aukinni ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingu — hrynur nýleg en óhemju gamaldags atvinnustefna stjórnvalda til grunna rétt norðar á Bakka. Hið kolareykspúandi kísilver er stopp, þrátt fyrir milljarða fyrirgreiðslu stjórnvalda. Starfsmenn þar, sem fæstir eru úr fjórðungnum, fá vinnu við slátrun tímabundið, ef ske kynni að báknið fari af stað að nýju.

Ég skal viðurkenna að ég hefði orðið ótrúlega dapur, og líklega sammála Nick Gompertz, ef myndin hefði sýnt þá mynd af Íslendingum. Lars að brenna kol í deyjandi iðnaði. Þá er hin klisjukennda staðalmynd um okkur sem drykkfellda jólasveinavíkingaálfa alltaf betri.

En yfir að allt öðru: Hvar eigum við að halda keppnina?