Mottumars er hafinn og eftir fimm ára hlé er Mottukeppnin endurvakin. Nú er tækifærið til að leyfa mottunni að njóta sín þegar gríman er felld.

Mottumars er í senn fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins og vitundarvakning um krabbamein hjá körlum.

Að meðaltali greinast 859 karlar á ári með krabbamein, meira en tveir alla daga ársins. Fjöldinn samsvarar um það bil öllum fullorðnum körlum á Ísafirði.

Í árslok 2019 voru 7.110 karlar á lífi sem höfðu fengið krabbamein, margir læknaðir og frískir en aðrir ýmist í meðferð við sjúkdómunum eða að kljást við margvíslega fylgikvilla sjúkdóms eða meðferðar. Krabbamein eru sem betur fer fyrst og fremst sjúkdómar fullorðinna en meðalmaðurinn sem greinist með krabbamein er ýmist nýhættur að vinna eða farinn að huga að starfslokum, svo hjá mörgum verða miklar sviptingar í lífinu á svipuðum tíma.

Algengasta krabbameinið hjá körlum er krabbamein í blöðruhálskirtli sem greinist oftast hjá mönnum á aldursbilinu frá 60 til 79 ára. Næstalgengust eru krabbamein í ristli og endaþarmi sem greinast flest hjá körlum eldri en 50 ára og þriðju algengustu krabbameinin eru krabbamein í lungum sem greinast flest hjá körlum eldri en 55 ára. Þó meðalaldur karla sem greinast með krabbamein sé 68 ár eru árlega tæplega 200 þeirra sem greinast yngri en 60 ára, næstum fjórir í hverri viku.

Mottumars hefur í gegnum tíðina sannað gildi sitt sem mikilvæg vitundarvakning og með átakinu hafa margir lært hver möguleg einkenni krabbameina eru og margir drifið sig til læknis eftir að hafa fengið skýr skilaboð þar um. Margir karlar hafa líka fundið fyrir miklum stuðningi með átakinu eða tekið hvatningunni um að styðja félagana enn betur, fagnandi. Þar fyrir utan hafa skilaboð um hvað hægt er að gera til að draga úr líkum á því að fá krabbamein fest sig í sessi hjá körlum á öllum aldri með hinum sígildu Mottumarslögum.

Átakinu í ár fylgir ekkert lag. Nú er hins vegar lag að taka þátt í mottukeppninni! Það geta allir gert, sumir með því að safna mottu og aðrir með áheitum. Átakið er líka hægt að styrkja með því að kaupa hina löngu klassísku Mottumarssokka. Krabbameinsfélagið og aðildarfélög þess um allt land vinna að því að koma í veg fyrir krabbamein hjá körlum, koma í veg fyrir dauðsföll af völdum krabbameina og stuðla að betra lífi fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Hver og einn karlmaður skiptir máli.

Í Mottumars leggja landsmenn Krabbameinsfélaginu lið í starfi sem er alfarið borið uppi af söfnunarfé. Með stuðningi sínum tryggir almenningur öf luga ráðgjöf fyrir sjúklinga og aðstandendur um allt land, fjölbreytt fræðslu- og forvarnarstarf, rannsóknir og hagsmunagæslu á vegum félagsins.

Kynnið ykkur sérsniðnar upplýsingar fyrir karla um krabbamein inni á karlaklefinn.is og skráið ykkur í keppnina á mottumars.is – Einn fyrir alla, allir fyrir einn!