Að undanförnu hefur verið áberandi kenning um að við inn­leið­ingu þriðja orkupakkans verði íslenska ríkið skuld­bundið til að leyfa lagn­ingu sæstrengs sem flytur raf­orku til ann­ars rík­is. Þar að auki hefur verið haldið fram að reyni ís­lenska ríkið að standa í vegi fyr­ir því að sæ­streng­ur verði lagður muni annaðhvort Eftirlitsstofnun EFTA höfða samn­ings­brota­mál gegn íslenska rík­inu fyrir EFTA-dómstólnum eða höfðað verði mál fyrir íslenskum dómstól sem leiti álits EFTA-dómstólsins um samningsbrot. Það mál muni tapast og íslenska ríkinu gert að greiða skaðabætur þar sem orka hefur verið skil­greind sem vara (síðan fyrsti orkupakkinn var innleiddur) og EES-samningurinn ger­i ráð fyr­ir frjálsu flæði á vör­um inn­an EES-svæðisins. Þessar kenningar eru firra.

Ekkert í orkupakkanum

Þriðji orkupakkinn fjallar ekki um skyldu aðildarríkj­a EES til að koma á eða leyfa sam­teng­ingu um flutn­ing orku sín á milli, m.ö.o. hann fjallar ekki um sæstrengi sem flytja raforku. Synjun eða höfnun orkupakkans hefur því engin bein áhrif á hvort lagður verði slíkur sæstrengur eða ekki.

Ein meginstoð EES-samningsins er frjálst flæði vöru. Þrátt fyrir að rafmagn sé skilgreint sem vara leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að sérhvert ríki eða einkaaðili á EES-svæðinu geti lagt sæstreng hingað til lands og tengst íslenska raforkukerfinu án þess að íslenska ríkið ráði neinu þar um.

Túlkunarreglur þjóðaréttar

Í þessu samhengi verður að hafa í huga að EES-samningurinn er milliríkjasamningur. Í 31. gr. Vínarsamningsins um milliríkjasamninga (e. Vienna Convention on the Law of Treaties) frá árinu 1969 eru að finna helstu túlkunarreglur þjóðaréttar. Ísland er ekki aðili að samningnum en er bundið af umræddu ákvæði þar sem það telst þjóðréttarvenja.

Í 1. mgr. 31. gr. kemur fram meginreglan að milliríkjasamningur skuli túlkaður í góðri trúi í samræmi við hefðbundna merkingu orðanna sem koma fyrir í honum í samhengi við og í ljósi markmiðs og tilgangs hans. Það er afar langsótt að finna skyldu til lagningar sæstrengs í hefðbundinni merkingu þeirra orða sem koma fyrir í ákvæðum EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga enda ekkert minnst á slíka skyldu.

Það sem meiru skiptir hér er að í c) lið 3. mgr. 31. gr. kemur fram að við túlkun milliríkjasamninga verði að taka tillit til hverrar þeirrar þjóðréttarreglu sem er í gildi á milli samningsaðila.

Hafréttarsamningur SÞ

Öll aðildarríki EES-­samn­ings­ins (sem og ESB sjálft) eru aðilar að haf­rétt­ar­samn­ingi Sam­ein­uðu þjóð­anna frá 1982. Taka verður því tillit til hans í þessu samhengi. Af 311. gr. haf­rétt­ar­samn­ingsins leiðir að almennt skulu ákvæði ann­arra samn­inga, sem að­ild­ar­ríki haf­rétt­ar­samn­ings­ins eiga aðild að, að vera í sam­ræmi við haf­rétt­ar­samn­ing­inn. M.ö.o. hafréttarsamningurinn trónir á toppnum í alþjóðakerfinu að því er varðar þær reglur er gilda á hafinu enda stundum kallaður stjórnarskrá hafsins.

Sæstrengir

Hafréttarsamningurinn er helsta réttarheimild þjóðaréttar um sæstrengi. Í 79., 87. og 112. gr. hans kemur fram að öllum ríkjum sé heim­ilt að leggja neð­an­sjáv­ar­strengi og -leiðsl­ur á land­grunnið og á úthaf­inu í sam­ræmi við nán­ar til­greind skil­yrði. Það rík­ir því tölu­vert frelsi varð­andi lagn­ingu neð­an­sjáv­ar­leiðslna og -strengja. Það eru ­yf­ir­leitt einka­að­ilar sem not­færa sér þessi rétt­indi. Þrátt fyrir orðalag hafréttarsamningsins um að umrædd réttindi tilheyri ríkjum þá er litið svo á að skýra skuli orðalagið á þann veg að það taki jafnframt til einkaaðila í viðkomandi ríki. Slíkur skilningur birtist m.a. í helsta skýringarritinu við samninginn.

Hafa verður í huga að hið lög­fræði­lega land­grunns­hugtak er annað en hið nátt­úru­vís­inda­lega. Land­grunns­hug­takið í skiln­ingi þjóða­réttar hefst utan­ land­helgi ríkja, þ.e. oft­ast 12 sjó­mílum frá svoköll­uðum grunn­lín­um. Í 4. mgr. 79. gr. haf­rétt­ar­samn­ings­ins kemur bein­línis fram að ekk­ert, í þeim hluta samn­ings­ins sem fjallar um land­grunn­ið, hafi áhrif á rétt strand­rík­is­ins til að setja skil­yrði vegna ­strengja eða leiðslna, sem ná inn í land eða land­helgi þess. M.ö.o. ríki ræður því hvort lagður er sæstrengur inn fyrir landhelgi þess. Þessi regla leiðir af fullveldisrétti strandríkja í landhelginni.

Engin sæstrengjaskylda

Af túlkunarreglum þjóðaréttar leiðir að skýra verður ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamningsins. Það þýðir að meginreglan um frjálst flæði vöru leiðir ekki til þess að á íslenska ríkinu hvíli skylda til að heimila lagningu sæstrengs sem flytur rafmagn hingað til lands. Íslenska ríkið getur því ekki orðið skaðabótaskylt af því að synja rétti sem er ekki til staðar. Það er útilokað. Að halda öðru fram er nýlunda í sögu alþjóðasamskipta.

Réttur Íslands til að heimila eða hafna lagningu sæstrengs inn fyrir landhelgina stend­ur óhagg­aður hvað sem þriðja orku­pakk­anum eða öðrum ákvæðum EES-samningsins líð­ur.