Í helgar­blaði Frétta­blaðsins liðna helgi birtist við­tal við hina palestínsku Fidu Abu Libdeh. Fida flutti hingað til lands sex­tán ára gömul á­samt móður sinni og fjórum syst­kinum þegar fjöl­skyldan flúði erfiðar að­stæður í heima­landinu og leitaði betra lífs hér á norður­hjara.

Mennta­skóla­árin voru Fidu erfið og þurfti hún að hafa meira en við flest fyrir því að ljúka stúdents­prófi á þá framandi tungu­máli. Það tókst henni þó að lokum, og lykillinn að lang­þráðu lang­skóla­námi var í hendi. Þann lykil notaði hún vel og stofnaði að loknu há­skóla­námi eigið fyrir­tæki í ný­sköpun. Fyrir­tæki sem í dag er metið á hundruð milljóna.

En þrátt fyrir að hafa lært ís­lensku, út­skrifast frá ís­lenskum há­skóla og skapað störf í gegnum fyrir­tæki sitt, sem nýtir ís­lenskar af­urðir sem annars færu for­görðum, upp­lifir Fida sig ekki jafn­rétt­háa okkur sem hér fæddumst með föla húð. Hún er í­trekað spurð hvort hún sé komin til að þrífa eða hvort hún vinni í mat­vöru­verslunum þar sem hún gerir inn­kaupin, í­klædd við­skipta­dragtinni, með börnin sín.

Saga Fidu er allt­of al­geng en for­dómar og fyrir­fram á­kveðnar skoðanir leynast víða. Fida segist upp­lifa slíkt bæði sem kona og sem inn­flytjandi en ég leyfi mér að full­yrða að flestar könnumst við konur enn árið 2021 við niðrandi at­huga­semdir sem annað hvort eru hugsaðar sem fyndnar eða ein­fald­lega, að því er virðist, alls ekkert hugsaðar.

Um ára­bil rit­stýrði ég og gaf út mitt eigið tíma­rit í fé­lagi við aðra konu. Einn daginn þar sem ég sat á skrif­stofu okkar, sem að hluta til var í opnu rými sem við deildum með körlum í ó­líkum fyrir­tækja­rekstri, gengu inn þrír mið­aldra karlar á leið á fund. Það má segja að uppi hafi verið á þeim typpið þar sem þeir gengu í salinn og það fyrsta sem þeim datt í hug að segja við mig, þar sem ég starði ein­beitt á tölvu­skjáinn í bullandi prent­skilum nýjasta tölu­blaðsins, í skrif­stofu­rými ræki­lega merktu þeirri starf­semi sem ég var á fullu við að halda gangandi: „Gætirðu sótt fyrir okkur kaffi?“

Það er skemmst frá því að segja að þeir voru heppnir að ég færði þeim ekki rjúkandi kaffi­bollann – beint í and­litið á þeim.

Þessi saga er ekkert merki­leg en hún er al­geng og slíkt við­mót hall­æris­lega út­breitt. Þessir karlar vissu alveg að ég sat ekki við skrif­borðið og lamdi lykla­borðið af al­efli bíðandi þess að fá að færa þeim kaffi. Þeim fannst bara fyndið að varpa þessu fram, enda hlógu þeir. Að sjálfum sér.

Við ætlum okkur ekkert endi­lega að niður­lægja eða særa þegar við í hugsunar­leysi segjum eitt­hvað eða gerum lé­lega til­raun til að vera fyndin. En ég held að okkur sé flestum hollt að temja okkur í auknum mæli að hugsa málið áður en við drögum á­lyktanir. Hvernig væri til að mynda að prófa fyrst að tala ís­lensku þótt við­mælandi þinn líti út fyrir að vera af er­lendu bergi brotinn?

Og það fer svo hver að verða síðastur til að henda kynjuðum bröndurum, eins og þessum með kaffið, í úldna land­fyllingu frá síðustu öld. Þar eiga þeir heima!