Á morgun hefst nýtt upphaf. Því gæti verið síðasti séns að gera eitthvað bjánalegt í dag áður en öll nýársheitin um hvernig við verðum að betra fólki taka gildi. Við getum verið haugar; borðað allt súkkulaðið, legið uppi í sófa yfir Netflix, umlað eitthvað framan í fólkið sem við búum með án þess að hlusta. Með nýju ári verður svo allt fyrirgefið. Þetta gerðist hvort eð er í fyrra.

Þessi síðasta vika er vika upprifjunar á árinu, sem nær hámarki í kvöld með annálum og Skaupinu. Svona rétt til að minna okkur á það sem við erum að kveðja áður en ástkær gæludýrin leita skjóls á meðan við sprengjum upp síðustu leifar þess. Við höfum tvo daga til að ræða hvort Skaupið hafi verið gott eða vont. En svo er tími kominn til að horfa fram á við.

Við tökum hlutverk Janusar, sem janúarmánuður er kenndur við, alvarlega. Guðs hliðsins sem gætir jafnt upphafs allra atburða og endaloka þeirra. En þurfum að muna að hann hefur tvö andlit og horfir samtímis áfram og aftur á bak. Hann gætir tímans.

Hættan er að festast í öðru andlitinu. Að horfa til framtíðar og gleyma því sem gerst hefur. Eða festast í fortíðinni og gleyma framtíðinni. En Janus er jafnvægið þar á milli. Þar sem sá síðasti verður ekki sá fyrsti, heldur bara þarna í miðjunni. Því tíminn flæðir ekki í hringi. Hann bara flæðir. Líka yfir áramót. Því skiptir engu hvort öll áramótaheitin taki gildi á morgun eða í maí. Glugginn til að verða að betri manneskju er alltaf opinn.

Gleðilegt ár, hvenær sem árið þitt byrjar.