Það var þungt yfir sumum þeim er gerðu upp árið, eða síðustu árin, í fjölmiðlum. Áherslan er um of á það sem hrjáir. Þetta séu tímar erfiðleika, spilltra átakastjórnmála og sívaxandi hamfarahlýnunar sem ýtir undir vonleysi og framtíðarkvíða.

En auðvitað er þetta ekki raunsönn lýsing á ástandi heimsins. Veruleikinn er annar og mun jákvæðari.

Hér skal ekki gert lítið úr mikilvægi þess að við spornum við aukningu gróðurhúsalofttegunda. Og breyta þarf lífsstíl sem gengur sífellt harðar á auðlindir náttúrunnar.

Hér er ekki dregið úr alvarleika þess hve margir eiga um sárt að binda. Né heldur úr þunga stríðsátaka, mannréttindabrota, misskiptingar og spillingar heimsins.

Og það á að taka alvarlega framsókn þeirra þjóðarleiðtoga sem tala í nafni lýðhyggju gegn fjölmenningu og alþjóðasamskiptum.

En þrátt fyrir daglegar fréttir af eymd, átökum, þrengingum, mengun og hamförum er staðreyndin sú að líf mannsins á jörðinni hefur farið batnandi og mannkyn hefur náð undraverðum árangri til meiri lífsgæða.

Það er óhætt að segja sama hvert litið er. Mælikvarðar á lífsgæði þjóða, sem alþjóðastofnanir og samtök leggja fram, benda til jákvæðrar þróunar síðustu árin. Þar eru sigrar mannkyns margir.

Á nýju ári eigum við ekki að láta myrka vetrardaga byrgja okkur sýn. Það þarf hugrekki fyrir betri heim.

Þannig hefur þrátt fyrir meiri misskiptingu dregið mjög úr alvarlegri fátækt í heiminum. Síðan 2010 hefur sárafátækt minnkað um helming og farið úr 18,2 prósentum niður í 8,6 prósent.

Á síðustu 10 árum hefur dregið úr ungbarnadauða heimsins um þriðjung og heilsufar hefur almennt batnað, þökk sé meiri þekkingu og nýmælum í vísindum og tækni.

Og þrátt fyrir að lýðhylli og stjórnlyndi virðist eiga meira upp á pallborðið hjá of mörgum leiðtogum heims hefur ferðafrelsi og athafnafrelsi aukist.

Jafnrétti kynjanna og mannréttindi hinsegin fólks hafa einnig þokast í rétta átt í mörgum löndum heims. Og svona mætti lengi telja.

En það má ekki taka þessu sem sjálfsögðu. Þessar framfarir eru knúnar áfram af stöðugri þörf til að bæta eigið líf og annarra. Betri lífskjör síðustu ára eru tilkomin vegna frjálsra viðskipta og þeirra tækniframfara sem opin hagkerfi og fjölþjóðleg samvinna leiða af sér.

Við megum ekki láta letjast af þeim sem sjá ógnir í aðkomnum, flóttamönnum eða samstarfi þjóða. Sem fyrr liggja alvarlegustu ógnir mannkyns í þröngsýni, ótta, vanþekkingu og skorti á samvinnu þjóða heims.

Nafni minn sagði: „Sá einn, sem áfram sækir, á andans þyrnibraut, og stæltur störf sín rækir, hann storkar hverri þraut.“ - Á nýju ári eigum við ekki að láta myrka vetrardaga byrgja okkur sýn. Það þarf hugrekki fyrir betri heim.