Í kuldakasti síðustu daga hef ég verið að reyna að auka hitann á ofnum heimilisins. Hluti af því ferli var símtal við fagmann.

Upptekinn pípulagningamaður á hraðferð: „Ertu búinn að skoða þrýstijafnarann?“

Ég: „Eh … hmmm.“

Pípulagningamaður: „Þú veist hvernig hann lítur út, er það ekki?“

Ég: „Auðvitað.“ Hvers konar svar var þetta eiginlega? Hvaðan kemur þessi krafa um að maður eigi bara að vita svona hluti? Einlægara svar hefði verið: „Nei, ég hef ekki hugmynd. Ef út í það er farið, veit ég eiginlega ekkert um viðhald á fasteignum, bílum eða tækjum yfirhöfuð. Ég fullyrði að yfirgnæfandi meirihluti minnar kynslóðar er svona líka. Jú, jú, maður lærir eitthvað smávegis á leiðinni, til dæmis mun ég eftir okkar samskipti loksins vita hvernig þrýstijafnari virkar. En fljótlega mun einhver önnur framandi græja gefa sig, einhver „loki“ eða „dæla“ sem ég hef ekki hugmynd um hvernig lítur út, hvernig á að gera við eða hvaða verkfæri eigi að nota.“

Píparinn: „… jæja vinur, ég þarf að …“

„Bíddu, þessu ímyndaða samtali er ekki lokið. Hvernig heldurðu að samningsstaða mín sé almennt í svona aðstæðum? Spindilkúla í bíl – kostar 50 eða 500 þúsund að fá nýja? Ég hef ekki hugmynd. Og hvernig stendur á því að ef mig langar til að læra að elda kóreskan mat, dansa reggí eða spila á trompet get ég valið úr mörg hundruð þúsund vefsíðum með leiðbeiningum, spjallþráðum og kennslumyndböndum en þegar ég ætla að gúggla hvernig þessar dularfullu heimilisgræjur með fáránlega lítið lýsandi nöfnum virka, þá fæ ég í mesta lagi sjö leitarniðurstöður á öllu Internetinu?“

Skrifað á Seltjarnarnesi, í ullarsokkum, við hliðina á hálfvolgum ofni.