Ekki verður það kallað annað en frekja og yfir­gangur þegar rúss­nesk stjórn­völd ætlast til þess að ís­lenskir fjöl­miðlar fari að kröfum þeirra um mynd­birtingar úr ógn­væn­legu og hræði­legu stríði sem þau sjálf hafa haft frum­kvæði að í austan­verðri Evrópu.

Rússakrafan er þessi: Ef þið dirfist að birta ljós­myndir sem eru okkur til háðungar og smánar sku­liði gjöra svo vel að biðjast opin­ber­lega af­sökunar á því, ellegar – og það má lesa á milli línanna, megiði hafa verra af.

Það er fá­heyrt, ef ekki eins­dæmi, að yfir­völd í nokkru landi fari fram með upp­á­stönduga til­ætlunar­semi af þessu tagi – og bein­línis segi frjálsum fjöl­miðlum fyrir verkum með þessum hætti.

Sér­stak­lega er þetta undar­legt í ljósi þess að fánar þjóð­ríkja eru svo til viku­lega brenndir, skornir eða eyði­lagðir með öðrum hætti á síðum dag­blaða eða á skjáum sjón­varps­stöðvanna með svo á­berandi hætti að ekki getur það hafa farið fram hjá nokkrum sæmi­lega upp­lýstum manni. Fánar þjóð­ríkja hafa verið, og munu á­vallt vera, and­lag stríðs­á­taka þar sem kúgað fólk og smánað tekur til varna með þessum tákn­ræna hætti. Mót­mæli um allan heim þar sem þjóð­fánar stríðs­herra og kúgunar­ríkja eru lítils­virtir eru raunar hluti af tjáningar­frelsi – og enda þótt úr­eltar laga­greinar kunni að segja annað, svo sem hér á landi, er rétturinn til and­ófs á neyðar­stundu miklum mun yfir­sterkari en laganna stoðir. Og raunar má ganga lengra og segja að sann­leikurinn og reglurnar séu alla jafna fyrstu fórnar­lömbin í hverju stríði.

En hér er líka kominn munurinn á Ís­landi og Rúss­landi. Og blessunar­lega er hann skýr. Hér er einnig að finna skilin á milli frjálsra lýð­ræðis­ríkja og þeirra ein­ræðis­landa í heimi hér sem undir­oka og beygja lýðinn undir dutt­lunga­fullt vald sitt.

Það er af þessum sökum sem rúss­neskum yfir­völdum er fyrir­munað að skilja hvaða gildi ríkja í öðrum þeim löndum sem trúa á tjáningar­frelsið og vilja hlúa að frjálsri fjöl­miðlun. Þau hafa ekki í sér það um­burðar­lyndi að una fólki þess að tala út um hugsanir sínar og langanir. Þau vilja binda fólk á klafa einnar hugsunar – og fari það út fyrir hana, er það ýmist fangelsað eða drepið.

Það er af þessum sökum sem ís­lenskir fjöl­miðlar verða að standa í lappirnar, svo og ís­lensk stjórn­völd sem hafa raunar gert svo í þessu máli.