Fimmtudaginn 14. nóvember birti Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimsspeki, grein í Fréttablaðinu þar sem hann telur sig hafa afhjúpað skilningsleysi mitt á eðli vísindanna. Með þessu finnst mér maðurinn sýna áræðni sem hann á skilið hrós fyrir, ekki vegna þess að ég telji mig ná til botns í málinu heldur vegna þess að Vilhjálmur hefur nákvæmlega enga reynslu í vísindum, aðra en þá að hafa skoðun á þeim. Þetta byrjaði á því að ég skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem ég lýsti undrun minni á tilurð laga um vönduð vinnubrögð í vísindum sem Vilhjálmur stóð fyrir. Undrun mín átti meðal annars rætur sínar í því að hvorki í lögunum né í greinargerð með þeim er skilgreining á því hvað átt sé við með heitinu „vönduð vinnubrögð í vísindum“. Í grein sinni segir Vilhjálmur það séu tvær ástæður fyrir því að þessa skilgreiningu vanti. Ein sé sú að vísindamenn almennt viti fullvel hvað séu vönduð vinnubrögð í vísindum. Þetta er einfaldlega rangt. Vísindamenn vita yfirleitt hvað teljast vönduð vinnubrögð á þeirra þrönga sviði, en þeir hafa ekki hugmynd um hvað teljast vönduð vinnubrögð í vísindum almennt, enda er eini samnefnari vandaðra vinnubragða í hinum ýmsu greinum vísinda heiðarleiki.

Það er full ástæða til þess að brýna fyrir vísindamönnum mikilvægi heiðarleika, en það sama á við um fólk af öllum öðrum stéttum eins og til dæmis útgerðarmenn og siðfræðinga. Öll samskipti manna á milli og allar gjörðir mannsins biðja um heiðarleika og án hans er ekkert til nema drasl. Það hlýtur því að teljast furðuleg ráðstöfun að setja sérstök lög um heiðarleika í vísindum, nema ef væri til þess að færa samfélaginu aðferðir til þess að taka á því þegar vísindamenn gerast uppvísir að óheiðarleika sem lögin hans Vilhjálms gera ekki. Hin ástæðan sem Vilhjálmur gefur fyrir því að hafa ekki í lögunum skilgreiningu á því sem þau fjalla um er að með því að hafa skilgreininguna þar væri búið að lagavæða siðferðileg viðmið sem hann segir að sé vont. Vilhjálmur er sem sagt á þeirri skoðun að það sé ekki gott að lagavæða siðferðileg viðmið í vísindum, en vill samt setja lög um þau og aðferðin til þess að takast á við það sé að nefna ekki viðmiðin á nafn? Hann staðhæfir að andstætt því sem ég segi þá séu til alþjóðleg viðmið um vönduð vinnubrögð í vísindum en það sætir furðu að hann skuli þá ekki annaðhvort segja okkur hver þau eru eða vísa okkur á stað þar sem við getum lesið um þau. Ég er hins vegar sammála Vilhjálmi að góð menntun vísindamanna er besta forvörnin gegn því að þeir gerist sekir um óheiðarleika. Góður leiðbeinandi í vísindum leggur áherslu á það við lærlinga að heiðarleiki sé eini eiginleikinn sem góður vísindamaður geti alls ekki verið án. Áður en þú kemst að svari við spurningu sem þú spyrð í vísindum þarftu að fara yfir í það minnsta tuttugu gatnamót, þar sem óskhyggjan getur dregið þig í vitlausa átt. Þú verður að vera heiðarlegur við sjálfan þig til þess að geta verið heiðarlegur við umheiminn. Það er meðal annars út af þessu sem það er mikilvægt að hafa viðurlög við óheiðarleika í vísindum eins og á öllum öðrum sviðum. Það er ekkert sem eykur meira líkurnar á því að maður gerist sekur um óheiðarleika í vísindum en að hann hafi gerst það áður.

Það verður að sjá til þess að þeir sem verða uppvísir að alvarlegum óheiðarleika í vísindum séu ekki kennarar verðandi vísindamanna og fái ekki tækifæri til þess að afvegaleiða samfélagið. Þess vegna verður að svifta þá kennslustöðum við háskóla og sjá til þess að þeir geti ekki sótt um styrki til þess að halda áfram vísindastarfi. Þetta er ekki til þess að refsa þeim, heldur til þess að vernda verðandi vísindamenn og samfélagið allt. Umræðan í alþjóðasamfélaginu um heiðarleika í vísindum hefur að miklu leyti snúist um það hvers konar viðurlög eigi að setja og hvernig eigi að beita þeim.

Vísindasamfélagið hefur mjög öflugt sjálfseftirlit sem virkar svona: Þegar vísindamaður hefur lokið rannsókn skrifar hann grein sem hann sendir í vísindatímarit. Ritstjórar tímaritsins skoða greinina og ákvarða hvort hún eigi erindi í tímaritið. Ef svo reynist er hún send til þriggja eða fjögurra vísindamanna sem eru sérfræðingar á því sviði sem greinin fjallar um. Þeir meta hversu vönduð vinnubrögð búa að baki greininni og hversu heiðarlega niðurstöðurnar eru tjáðar. Þeir senda síðan til tímaritsins athugasemdir við greinina sem vísindamaðurinn svarar eftir bestu getu. Greinin er síðan samþykkt til birtingar eða henni er hafnað. Þetta eftirlit sem virðist léttvægt og sakleysislegt er oft mjög hart og miskunnarlaust, en hefur virkað vel í meira en öld þótt það sé alls ekki gallalaust. Mín reynsla af þessu kerfi er að ég hef verið höfundur á tæplega 700 vísindagreinum og þar af hefur meiri hlutinn verið birtur í bestu vísindatímaritum heims. Þess utan hafa aðrir vísindamenn birt 96000 vísindagreinar þar sem þeir vitna í mínar greinar. Það er í krafti þessarar reynslu sem ég held að ég hafi nokkurn skilning á því hvað felst í því að vinna að vísindum. Vilhjálmur Árnason hefur enga reynslu í vísindum en tjáir sig um þau eins og sá sem best veit í krafti þess að hann vinnur við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, sem hefur breytt sér í sértrúarsöfnuð sem telur sig eiga að hafa síðasta orðið um allt sem lýtur að mannlegri breytni. Það er nú meiri vitleysan.