Eitt markverðasta skrefið í heimferðinni til þess lífs sem við þekktum eru áform stjórnvalda um að opna ytri landamæri og láta för ferðamanna hingað stjórnast af litakóðunarkerfi Evrópusambandsins og jafnframt að gilt bólusetningarvottorð eða staðfesting á mótefni tryggi aðgang að landinu án þess að fara þurfi í sýnatöku og sóttkví.

Þetta hefur verið ýmsum tilefni til gagnrýni og upphrópana. Fölsuð vottorð gangi kaupum og sölum á netinu, greið leið fyrir ýmis afbrigði veirunnar hingað verði til og svo framvegis. Þetta er eftir öðru sem tengt er þessum faraldri. Allt er dregið í efa og véfengt og farvegir fundnir fyrir þrætur.

Þrætur eru eins konar þjóðaríþrótt okkar. Við finnum flöt á alls kyns þrætum um allt og ekki neitt. Og þannig hefur það verið lengi.

Um þetta atriði segir Laxness í Innansveitarkroniku: „Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“

Takmarkanir á landamærum eru hins vegar ekki tittlingaskítur. Hvernig við högum málum á landamærunum ræður úrslitum um hraða efnahagslegrar endurreisnar landsins.

Undanfarinn áratug hefur ferðaþjónusta landsins vaxið og dafnað og var svo komið að efnahagslegur ávinningur af atvinnugreininni var orðinn meiri en af nokkurri annarri atvinnugrein. Þótt þetta sé ferðamannakreppa ná áhrif hennar langt út fyrir atvinnugreinina. Af sjálfu leiðir að þegar straumur ferðamanna rofnar og hingað koma ekki tvær milljónir ferðamanna árlega hefur það umfangsmikil áhrif. Tugþúsundir ganga atvinnulausar og þúsundir eru í skertu starfshlutfalli. Stórkostlegur halli er á ríkisfjármálum.

Það er því í besta falli sérkennilegt að menn hrópi sig hása þegar stigin eru varfærin skref út úr þessu ástandi. Það geta ekki verið rök í málinu að ekki skuli treysta á bólusetningarvottorð því þau gætu verið fölsuð. Það er stöðugt viðfangsefni á landamærum að kanna ferðaskilríki þeirra sem hingað koma og þar með talið að þau séu gefin út á réttum forsendum.

Fjölmennustu hópar ferðamanna áður en faraldurinn skall á voru Bretar og Bandaríkjamenn. Staða bólusetninga í löndum þeirra er betri en víðast. Samkvæmt tölum sem aðgengilegar eru á netinu hafa um 40 prósent Breta fengið einn eða tvo skammta bóluefnis. Samsvarandi hlutfall Bandaríkjamanna er um 33 prósent. Þá eru ótaldir þeir sem hafa mótefni í blóði eftir að hafa sýkst af veirunni og náð sér.

Það er því ljóst að með því að leggja ekki íþyngjandi höft á þá sem hingað vilja koma og sýna fram á mótefni í blóði standa líkur til að ferðaþjónustan rétti smám saman úr sér og hjólin taki að snúast á ný.

Það er fagnaðarefni en ekki þrætuepli.