Börn eru trúlega enn að teikna torfbæi, þrátt fyrir að hafa jafnvel aldrei séð slíkan. En torfbærinn lifir í huganum og er teiknaður við tjörn með tveimur syndandi svönum, með fjall í bakgrunni og sól á milli tveggja tinda. Það er flóknara að teikna alvöru sveitabæ, með stórt fjós og róbóta sem mjólka, fjárhús, hesthús og hlöðu. Og skemmu undir traktora, snúningsvélar og fjórhjól. Þá var auðveldara að fara bara í rómantíkina.

Sem barn voru líka langar raðir af bókum sem ég las um börnin af mölinni sem ekkert kunnu um lífið, fyrr en þau höfðu fengið að kynnast lífinu í sveitinni. Svo var hlegið að börnunum sem kunnu ekki að velja besta eggið úr fötunni, að smala dýrum eða heyja. Þau voru orðin svo fjarlæg náttúrunni að það var augljóst að þau áttu ekki að kunna að vera til. Heilnæmið tilheyrði sveitinni.

Þegar við erum alin upp við það hvað sveitin er heilnæm og góð, þá verður það enn meiri skellur þegar við fáum fréttir um illa meðferð á fylfullum hryssum til að taka úr þeim blóð, af þrengslum og illri meðferð á hænum með brotin bringubein, því álagið af því að verpa of stórum eggjum of oft er of mikið, af kjúklingum sem ná ekki að standa undir þyngd sinni eða litlum ungum sem hent er í hakkavélina því þeir eru af röngu kyni.

Raunveruleikinn við sumt dýrahald til manneldis hentar ekki rósrauðu myndinni okkar af sveitinni. Því munum við halda áfram að borða beikonið og hamborgarhrygginn og kaupa öll eggin í jólakökur og -ísa, því maturinn hefur að sjálfsögðu ekkert með fréttirnar af illri meðferð dýra að gera.