Sveitarfélög brugðust seint við að opna leik- og grunnskóla á mánudag. Enn og aftur sýndi kerfið hve svifaseint það er. Athygli vakti að opinberir starfsmenn sögðu við fjölmiðil að það væri til að tryggja fyrirsjáanleika. Það er jú betra að vita af skólum kyrfilega lokuðum en að það komi einhverjum á óvart að þeir hafi verið opnaðir.

Á sunnudag var ljóst að stormur væri í aðsigi. Rauð viðvörun var gefin út frá klukkan fjögur um nótt til hálf níu að morgni. Óttast var að það yrði tímafrekt að ryðja götur og því voru landsmenn beðnir um að halda sig heima. Af þeim sökum var skólahald fellt niður með tilheyrandi raski fyrir fjölskyldur og atvinnulíf.

Um morguninn var ljóst að færð á vegum var ágæt. Þó var ekki brugðist strax við. Grunnskólar, til dæmis í Reykjavík, voru ekki opnaðir en yngstu nemendurnir fengu að mæta í frístund sem var opnuð tæplega tvö. Leikskólarbörn gátu mætt frá klukkan eitt.

Þolinmæði fólks gagnvart tilefnislausum lokunum, eins og á mánudag, er á þrotum eftir að hafa orðið að vera mikið heima við í Covid-19 heimsfaraldrinum.

Á mánudagsmorgun hefði fjöldi stjórnmálaskörunga þurft að bretta upp ermar og berjast fyrir því að koma starfsemi aftur í gang sem allra fyrst. En ekki leggja hönd á plóg við að tryggja fyrirsjáanleika um skólalokan­ir. Stjórnmálamenn þurfa að sýna landsmönnum að þeir vilji fremur að samfélagið blómstri en að það sé í híði.