Ég kappkosta að hafa reglu á hlutunum, það verður sífellt meira aðkallandi. Sérstaklega núna þegar ég vinn heima hjá mér.

Ég raða í uppþvottavélina á morgnana á meðan grauturinn mallar og kaffið rennur. Við Hófí, kærastan mín, höfum tamið okkur það að borða hafragraut alla virka morgna, við tölum mikið um það hvað það er hagkvæmt. „Einhver fjögurhundruð kall fyrir morgunmat í heilan mánuð!“ Þetta segi ég stundum upphátt við Hófí og annað fólk sem ég hitti.

Vélin vinnur svo sína vinnu á meðan ég vinn mína, hún kurrar í íbúðinni á meðan ég hjakkast við einhverja texta á skrifstofunni.

Ég opna hana í hádeginu og hendi grænmeti í steypujárnspottinn. Potturinn fer inn í ofn og er þar fram að kvöldmat, þannig er kvöldmaturinn alltaf tilbúinn þegar við höfum lokið vinnu dagsins. Ég tala mikið um það hvað þetta er sniðugt við Hófí og annað fólk: „Þá erum við ekki í neinu stressi eða orðin alltof svöng þegar við loksins borðum.“ Þetta segi ég stundum upphátt, við Hófí og annað fólk sem ég hitti.

Diskarnir fara í vaskinn eftir kvöldmat og eru þar þangað til annað okkar lagar kvöldteið. Í því í er garðabrúða, hún ku vera róandi, og við drekkum það á meðan við lesum. Á meðan telaufin blandast heitu vatninu tökum við úr uppþvottavélinni. Þá ert allt klárt fyrir næsta morgun.

Það er gott hafa svona reglu á hlutunum, ég veit yfirleitt hvað ég á að gera á hverri stundu og ef ég ruglast get ég litið í uppþvottavélina. Ef allt fer óskum verður þessi regla á hlutunum þangað til ég dey.