Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að banna þrælahald, en frumvarp þess efnis var loksins lagt fram á Alþingi í gær.

Þrælahalds er ekki getið í íslenskum lögum og mansalsákvæði hegningarlaganna hefur ekki nýst til að koma lögum yfir íslenska þrælahaldara. Þrælahald hefur viðgengist refsilaust um áraraðir á Íslandi og raunar alla tíð. Aðeins einu sinni hefur verið refsað fyrir mansal á Íslandi, þá vegna flutnings á konu til landsins með það að markmiði að hún stundaði vændi í hagnaðarskyni fyrir þá sem dæmdir voru.

Í skýrslu um skipulagða brotastarfsemi frá árinu 2019 varaði greiningardeild ríkislögreglustjóra við því að Ísland væri áfangastaður fyrir mansal; einkum vinnumansal innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu. Greiningardeildin var hins vegar einungis að rifja upp eldri varnaðarorð frá fyrri skýrslu sinni árið 2015:

„Vöxtur í byggingariðnaði skapar hættu á ólöglegum innflutningi á verkafólki og dæmi eru um að viðkomandi þræli myrkranna á milli við slæm kjör. Dæmi eru um að brotamenn tengdir vinnumiðlunum eigi þátt í mansali með því að blekkja og misnota einstaklinga sem koma á þeirra vegum. Þá eykst hættan á að svört atvinnustarfsemi muni þrífast í tengslum við aukin umsvif í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.“

Verkalýðshreyfingin þekkir vel þessa lýsingu lögreglunnar frá árinu 2015 og hefur ítrekað krafist aðgerða.

Þrældómur fólks sem ánetjast hefur vímuefnum hefur þá sérstöðu að þrælunum sjálfum er refsað með fangelsisvist. Burðardýr fá harða dóma þrátt fyrir að hafa ekki átt annarra kosta völ en að verða við kröfum um að flytja fíkniefni kvalara sinna til landsins í þeirri von að rétta skuldastöðuna af.

Í nýju frumvarpi dómsmálaráðherra er lagt til að þeim sem útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingi í þeim tilgangi að hneppa hann í þrældóm verði refsað með allt að tólf ára fangelsi. Með lagfæringu á mansalsákvæðinu getur ráðherra státað af raunverulegum árangri.

Stjórnvöld hafa stigið góð skref á undanförnum misserum, sem geta lagt grundvöll að auknu trausti þolenda mansals í garð stjórnvalda. Þessi skref þarf að stíga til fulls og sýna þrælum sem notaðir hafa verið hér á landi í byggingarstarfsemi, ferðaþjónustu og fíkniefnaviðskiptum að þrælahald verði ekki lengur látið viðgangast.

Burðardýr sem dæmd eru í margra ára fangelsi eru ekki líkleg til að treysta stjórnvöldum fyrir þjáningum sínum eða segja til kvalara sinna. Verkamenn sem sæta nauðungarvinnu og búa við slæman aðbúnað treysta ekki heldur yfirvöldum sem ekki eru til annars líkleg en reka þá úr landi. Traust skiptir öllu máli ef árangur gegn þessari plágu á að nást. Ekkert getur eflt það traust nema beinar aðgerðir.

Frumvarp ráðherra er fyrsta skrefið en þegar Alþingi er búið að samþykkja það þurfa lögregla, ákæruvaldið og dómstólar að sjá til þess að hin nýju ákvæði verði ekki dauður bókstafur.