Ef eðlilega hefði verið haldið á málum á ritstjórnum landsins aðfangadag síðastliðinna jóla hefðu vakthafandi blaðamenn, allir sem einn, slegið á þráðinn til dómsmálaráðherra eða sent henni skeyti, með fyrirspurninni: „Varst þú í Ásmundarsal í gær?“

Annað virðist nú hafa komið á daginn en sú nýlunda virðist hafa verið tekin upp á einhverjum ritstjórnum að líta á dómsmálaráðherra sem upplýsingafulltrúa eða ritstjóra lögreglunnar og sem slík hafi hún því hlutverki að gegna að svara fyrir persónuverndarstefnu lögreglunnar. Ekkert var þó haft eftir ráðherra í fjölmiðlum um stefnu lögreglunnar í þessum efnum í aðdraganda jóla og það var ekki fyrr en milli jóla og nýárs að hinn formlegi upplýsingafulltrúi lögreglunnar sendi tilkynningu til fjölmiðla um að farist hefði fyrir að ritskoða dagbók lögreglu áður en hún var send fjölmiðlum á aðfangadag. Málið verði rannsakað til hlítar.

Ekkert bendir til annars en að valdbeiting ráðherra á aðfangadag hafi borið árangur. Afleiðingin verður lemstruð lögreglurannsókn á sóttvarnabroti, aukin tortryggni almennings gagnvart lögreglunni og skaddað samband lögreglu og fjölmiðla í landinu.

Afskipti dómsmálaráðherra af starfsemi lögreglu í tengslum við meint sóttvarnabrot í Ásmundarsal eru hins vegar ekki einsdæmi heldur þekkt mynstur.

Lögreglan er sérstaklega berskjölduð fyrir pólitískum áhrifum að mati GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu. Í skýrslu sem samtökin birtu árið 2018 er meðal annars vísað til ábyrgðarkeðjunnar innan lögreglunnar, en hún sé lárétt en ekki lóðrétt og allir lögreglustjórar landsins heyri undir ráðherra en ekki ríkislögreglustjóra. Aðrar tæknilegar ástæður valdi einnig þessari hættu. Ekki er nóg með að lögreglan sé berskjölduð fyrir pólitískum áhrifum heldur hefur hætta á slíkum áhrifum raungerst með beinum afskiptum ráðherra af starfsemi lögreglu. Það er ekki aðeins mat stjórnmálamanna í stjórnarandstöðu eða fjölmiðla, heldur einnig fyrrnefndra samtaka og umboðsmanns Alþingis.

Ekki eru mörg ár síðan ráðherra í sama ráðuneyti þurfti að bakka með óheiðarlega útgáfu af óforsvaranlegum samskiptum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Hún neyddist á endanum til að biðja lögreglustjórann afsökunar í viðurvist umboðsmanns Alþingis, sem hóf frumkvæðisathugun á umræddum samskiptum þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hafði lokið sér af. Lögreglustjórinn hafði þá þegar sagt starfi sínu lausu og ráðherrann neyddist til að segja af sér skömmu síðar.

Eins og dæmin sanna hefur umboðsmaður Alþingis haft tilhneigingu til takmarkaðrar þolinmæði gagnvart óforsvaranlegum afskiptum ráðherra af lögreglurannsóknum. Ætla má að eftirlit þingsins sé nú það eina sem kemur í veg fyrir að hann taki málið til skoðunar að eigin frumkvæði. Þar sem kosningar eru á næsta leiti eru litlar líkur á að þingmenn í framboði séu reiðubúnir að sleppa tökunum.