Mér tókst að setja Facebook á hliðina um daginn. Ég vissi vel að ég myndi ýta mörgum að brún örvæntingar svona rétt fyrir hátíðar, en að baki gjörningnum lá einbeittur brotavilji. Ég sumsé tilkynnti alþjóð að ég hefði fjárfest í ristavél. Já, ristavél!

Það var eins og við manninn mælt. Fram stukku ólíklegustu vinir mínir sem máttu vart mæla af vanlíðan vegna þessarar orðnotkunar og ljóst var málið klýfur heilu fjölskyldurnar, hefur valdið gríðarlegum deilum og legið við slagsmálum á samkomum. Í minni nærfjölskyldu segi ég og yngri dóttirin ristavél án þess að blikna. Elskulegur eiginmaðurinn og eldri dóttirin segja brauðrist, dálítið heilög í framan.

Sem betur fer stökk inn í umræðuna Eiríkur Rögnvaldsson, professor emeritus í íslensku, og rökstuddi að vissulega væri hið danska tökuorð brauðrist eldra í málinu en hins vegar væri ristavél íslensk smíð. Rétt er að taka fram að rök um vélarleysi ristavélarinnar eiga ekki við, enda ekki vélar í ýmsum öðrum orðum sem notuð eru (kaffivél, stígvél, hakkavél).

Í öllu falli leiddi umræðan mig til umhugsunar um umburðarlyndi í notkun íslenskunnar. Sjálf hef ég lengi hreinlega glímt við innantökur ef fólk notar y og ý ekki rétt. Þessa þjáningu rek ég til þess að ég átti erfitt með að læra þetta sjálf en það hafðist með herkjum og góðum stuðningi míns ágæta íslenskukennara, Eyþórs Benediktssonar í Stykkishólmi. Hann, líkt og Eiríkur, lagði áherslu á rétt mál og rithátt en umburðarlyndi sömuleiðis.

Því óska ég ikkur öllum árs og fryðar, með ristavélum og brauðristum.