Það stendur yfir ríkisvæðing á Íslandi. Pólitískur vilji til þess arna er einbeittur og afdráttarlaus. Öllum stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi liggur jafn mikið á í þessum efnum, allt frá hægri, yfir miðjuna og þaðan til vinstri.

Krafa þessara afla er að fjölga ríkisstarfsmönnum að miklum mun, hækka við þá laun og setja á laggirnar nýjar stofnanir eða stækka þær sem fyrir eru.

Fyrri met í þessum efnum voru slegin í fyrra. Og það má greina ánægjuhroll innan kerfisins sem strýkur á sér bústinn magann. Ríkisstörfum fjölgaði um tæplega fjórtán hundruð á síðasta ári, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um staðsetningu starfa á vegum hins opinbera.

Þetta er vel í lagt, rösklega fimm prósenta fjölgun á einu ári, raunar sú mesta sem mælst hefur á einu ári frá því stofnunin byrjaði að fylgjast með útþenslu báknsins á Íslandi. Og svo þessi þróun sé orðuð með enn skýrari hætti; ríkisstarfsmennirnir eru fjórum þúsundum fleiri en fyrir bara sjö árum.

Einkageirinn, þar sem hlutfallslega langmestu verðmætin verða til á Íslandi, horfir á þessa vegferð undrunaraugum, milli þess sem hann hristir hausinn. Og það er ekki aðeins vegna þess að ríkisstarfsmenn skuli núna vera orðnir samtals vel yfir 26 þúsund talsins – og fjölgi nú árlega um meira en þúsund manns, heldur ekki síður vegna þess að það er ríkið sem leiðir nú launaþróunina í landinu með því að yfirbjóða starfsmenn einkafyrirtækjanna. Og þeir láta ekki segja sér það tvisvar að komast í öruggt skjól innan embættismannakerfisins og allra handa stofnana á betri kjörum og við meira atvinnuöryggi en nokkur annar geiri atvinnulífsins getur boðið upp á.

Og allt þenst út, allt frá minnstu undirstofnunum til æðstu stjórnar ríkisins. Þar á bænum er raunar runnið á menn ráðningaræði í bland við sjálftökusukk hvað launakjörin varðar. Þingmenn hafa farið þar einna fremstir í flokki í að skara eld að eigin köku. Mánaðarlaun þeirra hafa á síðustu misserum hækkað sem nemur tugum prósenta. Og verði menn ráðherrar geta þeir valið um 27 aðstoðarmenn, langtum fleiri en nokkru sinni, en laun þess afmarkaða hóps hafa hækkað um 70 prósent í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Þetta er ríkisvæðingin. Almenningur borgar. Og svona kjarabætur eru óhugsandi fyrir hann.