Hver hefði trúað því í byrjun árs að hægt væri að loka Banda­ríkjunum í bók­staf­legri merkingu; að hið sama gæti gerst annars staðar, löndum væri lokað eða þau lokuðust eins og gerðist hjá okkur. Samt var þetta nú allt hægt enda mark­miðið að vernda líf og heilsu.

Fram hafa komið í fjöl­miðlum sam­tök sem nefna sig Sam­tök á­huga­fólks um spila­fíkn, SÁS. Þau hafa skýrt frá því, sem stundum áður hefur verið haft á orði, en nú á ó­venju skil­merki­legan hátt, hvernig spila­fíkn leiki ein­stak­linga og fjöl­skyldur, valdi van­líðan og þung­lyndi, leiði til upp­lausnar fjöl­skyldna, ó­mældrar ó­hamingju og fjár­tjóns, svo miklu að þeir sem á­netjast fíkninni missi iðu­lega allar eigur sínar ef þá ekki einnig eignir annarra sem spila­fíklinum standa nærri.

Er ekki nóg sagt með þessu til að allir skilji að við erum að tala um al­var­legt heilsu­fars­vanda­mál engu minna en kórónu­veiran veldur þeim sem fyrir verða; heilsu­fars­vanda­mál sem kemur okkur öllum við?

Þjóðinni þykir það greini­lega. Í stór­merki­legri skoðana­könnun á vegum Gallup, sem birt var fyrir fá­einum dögum, kom fram að yfir­gnæfandi meiri­hluti þjóðarinnar vill að spila­kössum og spila­sölum verði lokað til fram­búðar. Sam­tök á­huga­fólks um spila­fíkn hafa sagst hafa skrifað ríkis­stjórninni og óskað eftir við­ræðum um þetta efni. Það mun hafa verið gert áður en leyfi var gefið fyrir að heimila þeim sem reka spila­kassa að opna þá að nýju.

Svo er að skilja að sam­tökin hafi ekki enn verið virt svars. En nú þegar þjóðin hefur svarað fyrir sitt leyti er þá ekki kominn tími til að ríkis­stjórnin bregðist við og fari að al­manna­vilja: Grípi til ráð­stafana til að vernda líf og heilsu fólks sem er ógnað með til­vist vél­búnaðar sem læ­vís­lega hefur verið hannaður og síðan komið fyrir í sjoppum, á bensín­stöðvum og svo í spila­sölum.

Sam­kvæmt skoðana­könnunum taka nánast engir gilda þá skýringu sem haldið hefur verið að okkur að fólk fari með al­eigu sína í spila­kassa til að styðja „gott mál­efni“. Fólkið sem reiðir fram milljarðana gerir það f lest vegna þess að það hefur á­netjast sjúk­legri fíkn. Það er sam­fé­lagsins að frelsa það undan henni.