Ríkisstjórnin er fallin. Þetta sýnir ný skoðanakönnun Gallup, sem birt var í gær.

Allir stjórnarflokkarnir tapa fylgi og myndu, ef kosið væri til þings nú, fá 31 þingmann kjörinn en eru með 38 þingmenn í dag.

Minnihluti kjósenda styður ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Þetta þarf ekki að koma á óvart. Ríkisstjórnin hefur misst öll tök á stjórn efnahagsmála og ekkert bendir til þess að hún búi yfir raunhæfri áætlun í þeim efnum. Ekkert bendir raunar til að hún búi yfirleitt yfir neinni áætlun um annað en að sitja sem fastast.

Ríkistjórnarflokkarnir eru ósammála um flest mál. Stjórnarsáttmálinn gengur út á innihaldslausan fagurgala. Staðreyndin er sú að hver ríkisstjórnarflokkur hefur í raun neitunarvald í ríkisstjórninni og vegna þess hve stefna flokkanna er ólík eru engar ákvarðanir teknar.

Ísland er ekki í hlutlausum gír. Ísland er í handbremsu og slökkt á vélinni.

Enginn efast um að umhverfisráðherra hefur vilja og kjark til að hrinda af stað framkvæmdaáætlun til að raungera orkuskiptin, sem ríkisstjórnin hefur lofað að klára fyrir 2040. Hann kemst hins vegar hvorki lönd né strönd vegna þess að Vinstri græn hafa neitunarvald.

Vinstri græn standa í vegi fyrir orkuskiptum og nota meinta ást sína á umhverfinu og íslenskri náttúru sem tylliástæðu til að hindra þær virkjanaframkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að orkuskiptin hér á landi verði að veruleika.

Heimilin í landinu og fyrirtækin standa frammi fyrir gríðarlegum búsifjum vegna efnahagsóstjórnar ríkisstjórnarinnar og galinnar vaxtastefnu Seðlabankans sem virðist telja réttu leiðina til að berjast gegn verðbólgu að flytja milljarðatugi og -hundruð frá skuldsettum heimilum og atvinnulífi til fjármálafyrirtækja og fjárfesta. Hygla auðmönnum á kostnað atvinnulífs og heimila. Hjarðhegðun hagfræðinga gegn almenningi.

Ekki er að furða þótt ríkisstjórnin hafi glatað trausti kjósenda. Hún hefur ekki aðeins glatað því. Hún hefur fyrirgert rétti sínum til þess.