Sem betur fer njótum við þess flest að alast upp og búa í for­eldra­húsum þar til við erum til­búin að hleypa heim­draganum. Við höfum notið þess að eiga skjól meðan við stunduðum nám og bjuggum okkur undir að halda út í lífið.

Þessi tíma­mót í lífi flestra ung­menna verða nú æ seinna. Þeir sem það geta, kjósa að búa heima eins lengi og kostur er, í mörgum til­vika þar til námi er lokið og jafn­vel að­eins lengur. Það er nefni­lega gott að búa frítt meðan til dæmis safnað er fyrir inn­göngu­miðanum á fast­eigna­markaðinn.

Allir for­eldrar vilja styðja og að­stoða börn sín eins og kostur er, það er djúpt í eðli þeirra og þykir al­mennt sjálf­sagt. Einn hópur for­eldra hefur þó ekki þennan rétt.

Búi for­eldri við ör­orku og þarf þess vegna að reiða sig á fram­færslu frá al­manna­trygginga­kerfinu, er því gert að vísa barni sínu á dyr á 18 ára af­mælis­daginn. Undan­þágu frá þessu er að­eins hægt að fá ef barnið er í skóla, þá frestast þessi brott­rekstur um 2 ár.

Á­tján ára eiga flestir eftir eitt ár í mennta­skóla, eftir að hann var styttur í þrjú ár. Síðan tekur við frekari sér­menntun, standi hugur til þess.

Á þeim tíma­mótum þurfa börn fatlaðra for­eldra að standa á eigin fótum. Finna sér hús­næði, þau eru nefni­lega orðin baggi á fötluðu for­eldri, sem verður fyrir tekju­skerðingu búi ung­mennið á­fram í for­eldra­húsum.

Viður­lögin við því að fatlað for­eldri veiti barni sínu húsa­skjól eru tekju­missir, ríkis­valdið tekur af heimilis­upp­bót sem getur hæst numið tæpum 54.000 kr. fyrir skatt. Upp­hæðin sem þetta for­eldri hefur til fram­færslu sér og barni sínu er þá um 258.000 fyrir skatt.

Stjórn­völd telja að fatlað for­eldri hafi svo mikið fjár­hags­legt hag­ræði af því að búa með barni sínu og hafa þess vegna girt fyrir slíkt með reglu­gerð.

Ég þekki ekkert for­eldri, fatlað sem ó­fatlað, sem telur fjár­hags­legan á­vinning af því að búa með barni sínu.

Ég þekki hins vegar marga ó­fatlaða for­eldra sem styðja börn sín út í lífið, ekkert þeirra þarf að sæta því að ríkis­valdið segi þeim hvaða stuðning þau mega veita börnum sínum, hvað þá að ríkið skerði laun þeirra.

Ég skora á Ás­mund Einar Daða­son fé­lags- og barna­mála­ráð­herra að standa með sjálfum sér og af­nema þessa reglu­gerð með öllu og leið­rétta þar með ó­rétt sem börn, ung­menni og fatlaðir for­eldrar hafa sætt.

Af­nema reglu­gerð sem í raun gerir ríkinu kleift að mis­muna börnum fatlaðra for­eldra, þannig að for­eldrarnir geti ekki stutt börn sín á kannski þann eina hátt sem þau annars gætu, að veita þeim húsa­skjól.

Það er holur hljómur í tali stjórn­mála­manna á tylli­dögum að við höfum öll jöfn tæki­færi. Að hér drjúpi jú smjör af hverju strái. Það er ekki öllum boðið í veisluna.