Þegar áföll verða eiga stjórnvöld að vaka yfir þjóð sinni. Það er skylda þeirra og henni eiga þau að sinna af festu og ábyrgð. Ríkisstjórn Íslands hefur boðað ýmiskonar aðgerðir sem eiga að vernda einstaklinga og fyrirtæki fyrir þeim efnahagslegu áföllum sem kórónaveiran mun valda. Þarna verður ekki annað séð en að ríkisstjórnin sé að gera vel. En um leið leitar hugurinn óneitanlega aftur til hrunáranna þegar einmitt var ekki nægilega hugað að hag einstaklinga – með hrikalegum afleiðingum. Ríkisstjórnin sem þá var við völd brást þjóðinni að mörgu leyti. Núverandi ríkisstjórn er hins vegar að standa sig og heldur því vonandi áfram.

Á hverjum tíma er fjarska auðvelt að andvarpa og segja að ríkisstjórnin sé algjörlega duglaus. Því munu margir af gömlum vana góla að þessi ríkisstjórn sé ekkert að gera, en það er ekki rétt. Ríkisstjórnin er alls ekki að bregðast. Satt best að segja er hún að gera svo miklu meira en búast hefði mátt við af henni. Þannig má segja að hún hafi komið skemmtilega á óvart á tímum sem eru alls ekki nægilega skemmtilegir.

Samt er það ekki ríkisstjórnin sem er að tala mestan kjark í þjóðina. Og ekki heldur forsetinn, jafn ágætur, ljúfur og yndislegur sem hann er. Stjórnmálamennirnir og forsetinn falla í skuggann af hinu öfluga og trausta þríeyki sem dag hvern upplýsir þjóðina um stöðu mála og varar við um leið og það hughreystir. Alma Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir eru rétta fólkið á réttum stað á réttum tíma. Það mæðir mikið á þeim en þau standa vaktina af staðfestu.

Á tímum eins og þessum er jafnlyndi eftirsóknarverður eiginleiki og þríeykið hefur hann í miklum mæli. Alma, Víðir og Þórólfur ætla ekki að láta koma sér úr jafnvægi en leyfa sér samt líka að sýna tilfinningar. Að auki búa þau yfir sterkri greinandi hugsun – það mætti sannarlega vera meira af henni í heiminum. Þau gera sér líka góða grein fyrir að stundum þarf að segja sömu hlutina aftur og aftur til að þeir síist inn hjá almenningi. Einmitt þannig hafa ýmsar staðreyndir komist vel til skila á liðnum vikum. Þríeykið er gott fólk sem veit hvað það er að gera.

Það er alveg í takt við nútímann og þær upphrópanir sem þar tíðkast, ekki síst á netinu, að upp skuli rísa hópur manna, sem beinir spjótum sínum að þríeykinu og finnst þau ekki hafa nægilega mikið vit á málum. Þessir gagnrýnendur vita alls ekkert um sýklavarnir og farsóttir heldur styðjast einungis við eigið hyggjuvit sem þeir telja óbrigðult. Þeir hafa mun meiri trú á því en vísindum sem þeir gefa ekki mikið fyrir. Þessi hópur hefur hátt en þarna á við málshátturinn góði að oft bylur hæst í tómri tunnu.

Hið góða þríeyki, Alma, Víðir og Þórólfur, hafa áunnið sér traust þjóðarinnar með fagmennsku sinni, staðfestu og óþrjótandi vinnusemi og auk þess opinberað hlýju og umhyggju á tímum þar sem við þurfum einmitt á slíku að halda.