Tjáskipti telj­ast til grundvallar­mann­réttinda eins og kemur fram í grein 19 í Mannréttindasáttmála Sam­einuðu þjóðanna frá 1948. Þessi grein tekur ekki bara til þess að eiga samskipti við aðra og skiptast á skoðunum og hugmyndum heldur einnig til þess að búa yfir hæfni og getu til tjáskipta.

Ég hef í áratugi rannsakað máltöku barna. Leikskólaárin leggja grunn að færni barna í tungumálinu. Við tökum því sem gefnu að við upphaf grunnskólagöngu séu öll börn með góðan málþroska. En orðaforði er mismunandi milli barna og einnig leikni við að orða hugsun, þarfir og langanir. Sum fjögurra ára börn geta verið með sambærilegan orðaforða og sex ára börn, meðan önnur eru með orðaforða á við tveggja ára börn.

En af hverju er þessi breytileiki?

Rannsóknir síðustu ára hafa leitt í ljós að umhverfi barna hefur mikil áhrif á færni þeirra í tungumálinu. Börn sem er talað mikið við hafa almennt meiri orðaforða og betri tök á tungumálinu en þau sem er minna talað við. Ísland er ekki frábrugðið öðrum löndum í þessu efni og hafa rannsóknir sýnt að félagsleg staða og menntun foreldra hefur mælanleg áhrif á færni barna í tungumálinu. Börn menntaðra foreldra búa almennt yfir meiri og fjölbreyttari orðaforða. Það sama á við um börn sem eiga foreldra í sambúð en margar rannsóknir hafa leitt í ljós að börn einstæðra foreldra sýna að meðaltali slakari færni í tungumálinu en börn foreldra sem eru í sambúð.

Hins vegar sýna rannsóknir ekki að munur sé á milli kynja á leikskólaárunum. Stúlkur reynast ekki vera með betri málþroska en drengir, ólíkt því sem oft hefur verið haldið fram. Búseta hefur hins vegar áhrif. Í ákveðnum landshlutum sýna börn að meðaltali meiri færni en í öðrum. Innan Reykjavíkur er mikill munur á milli hverfa og jafnvel á milli einstakra leikskóla innan sama hverfis. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að með markvissri örvun í leikskóla er hægt að hafa áhrif á færni barnanna í tungumálinu. Mikilvægi málörvunar í leikskóla er óumdeilt og ætti að jafna möguleika barna og gefa öllum tækifæri til að ná góðum tökum á íslenskunni.

Fjöltyngdir nemendur

Á nýlegri ráðstefnu um menntun fjöltyngdra nemenda var lögð áhersla á að koma til móts við nemendur út frá þeirra þörfum, óháð kyni og uppruna, og að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar. Það er mikill misskilningur að börn á leikskólaaldri nái tökum á mörgum tungumálum áreynslulaust. Við vitum að til að læra nýtt tungumál þurfa börn að heyra tungumálið í að minnsta kosti einn þriðja af vökutíma þeirra. Þar skiptir ekki máli hvort um er að ræða móðurmálið eða tungumál umhverfisins. Það sem skiptir meginmáli er hversu mikið þau heyra, gæði málörvunar og að þau fái ríkuleg tækifæri til að tjá sig á tungumálinu.

Flest börn dvelja í leikskólum á Íslandi átta tíma á dag, fimm daga vikunnar eða megnið af vökutímanum. Nú hefur verið sýnt fram á að fjöltyngd börn á Íslandi ná að meðaltali ekki nægilega góðri færni í íslensku, þrátt fyrir að vera fædd á Íslandi og hafa gengið í leikskóla í þrjú til fjögur ár. Orðaforðinn er fábreytilegur og þau gera mun fleiri villur í málfræði en íslenskir jafnaldrar þeirra. Jafnframt sýndi ein rannsókn að leikskólabörn sem höfðu pólsku að móðurmáli voru með sama orðaforða í pólsku og jafnaldrar í Póllandi, en höfðu mun fátæklegri orðaforða á íslensku en íslenskir jafnaldrar. Rannsóknir frá Belgíu og Bretlandi benda til hins gagnstæða. Þar er tungumál umhverfisins ríkjandi mál fjöltyngdra barna.

Brottfall úr framhaldsskóla

Við sýndum fram á með HLJÓM rannsóknum að færni barna við fimm ára aldur í hljóðkerfisvitund og almennum málþroska spáir sterkt fyrir um námsgengi þeirra í grunnskólanum, bæði í íslensku og í stærðfræði. Lestur byggist á umskráningu á bókstöfum í hljóð og orð og skilningi á þeim orðum sem við erum að lesa. Góð færni í tungumáli skólans er lykillinn að velgengni og líðan í skóla. Öll börn eiga rétt á því að læra íslensku óháð menntun, stöðu foreldra og uppruna. Brottfall úr framhaldsskóla byggir á grunnfærni sem er lögð í leikskóla. Eflum málfærni leikskólabarna og stöndum vörð um rétt barna til að læra tungumál skólans, íslenskuna.
Höfundur er talmeina­fræðingur.