Það bæri vott um mikla samfélagslega blindu eða meðvitaða missýn að draga í efa eða neita frelsandi áhrifum MeToo hreyfingarinnar á jafnréttisstöðu kvenna. Án hennar væri margur dóninn enn heiðursmaður. Þegar konur koma opinberlega fram undir nafni og segja frá stað og stund, ber það vott um ábyrgð og kjark, þá getur málið fengið framgang innan réttarríkisins. Nafnleysið er andhverfa þess. Yfirlýsingar nafnleysingja liggja áfram í loftinu, án þess að meintur gerandi geti borið hönd fyrir höfuð sér. Hann er réttlaus. Oft hefur verið á það bent hve varhugaverð sú aðferð sé, að ásaka einhvern um alvarlega hegðun úr skjóli nafnleyndar. Sú aðferð minnir á leyniskyttur sem skjóta á varnarlausa. Mannfólkið er missterkt siðferðislega. Sumir telja sig hafa rétt til að ná sér hressilega niður á annarri persónu eða til að koma voðaorði á einstakling. Í slíkum tilfellum er upplagt að gera það án þess að hægt sé að persónugreina ákæranda. Þá er sú aðferð alþekkt og var (er?) stunduð af alúð af íslenskum fjölmiðlum, að birta óhróður og jafnvel níð undir nafnleynd. Nafnleyndin hefur þá miklu kosti, að sá sem ber óhróður um náungann eða ber hann sökum um óviðurkvæmilega hegðun, ber enga ábyrgð á framburði sínum eða skrifum. Þetta er íslenska aðferðin. Víðast hvar erlendis virðist mér nafnleysið vera undantekning.

Nafnleyndin

Það er nafnleyndin sem gerir þessa aðferð femínista svo siðferðislega brenglaða, því nafnleysinginn firrir sig ábyrgð á sannleiksgildinu. Hann er ekki til, nema sem getgáta. Manneskja er borin sök, sá sem það gerir þarf ekki að sýna mikla tilburði til að færa sönnur á atburðinn. Hvernig er hægt að verjast ákæru þar sem kærandinn er án nafnnúmers eða hulinn búrku? Það er kallað réttleysi. Ásökunin er ekki borin fram í dómsal heldur eins og illmælgi, sem er dreift í gegnum samherja í fjölmiðlum. Það má draga af því þá ályktun, að aðalatriðið sé að ræna viðkomandi ærunni, gera hann útlægan úr mannlegu samfélagi. Af þeim dæmum sem birst hafa í fjölmiðlum og sem miða að fordæmingu og ærumissi, er ógerningur að sannreyna atburðarás. Grunaður maður í morðmáli fengi ekki slíka útreið. Aftökur úr launsátri eru þekktar en að sama skapi ekki rómaðar. Skyldi hugsunin að baki óhæfu nafnleyndarinnar vera gamla illkynjaða slagorðið: Tilgangurinn helgar meðalið?

Fælingarmáttur

Auk glæpagengja hafa margir stjórnmálamenn, sem reisa stefnu sína og athafnir á trúrænni sannfæringu, nýtt sér „tilganginn“ til að réttlæta óhæfuverk sín. Tilgangurinn er í þeirra augum svo heilagur að allt var leyfilegt – einnig aftökur. Samviskulausir einræðisherrar hafa gert þetta að megin siðferðisreglu sinni. Bæði kommúnisminn og fasisminn sem og fjölmörg öfgasamtök hafa gert þetta heilræði að kjörorði sínu. Réttlæting óhæfunnar var fólgin í því, að viðkomandi hreyfing vildi hefna fyrir þau „glæpaverk“ sem beitt var gegn þeim sem voru í svipaðri stöðu fyrr á öldum. Í því fælist hreinsunarmáttur fyrir samfélagið. Jafnframt átti fordæmið að hafa fælingarmátt gagnvart verðandi kúgurum. Engar aðferðir gengu of langt til að stöðva áratuga ánauð arðræningja og kúgara á undirokuðum. Flestar pólitískar hreinsunar- og hefndarstefnur beittu þess konar réttlætingu. Óhæfuverkin voru endurgjald fyrir kúgun fortíðar. Aldalöng kúgun konunnar er einnig sögð réttlæta nafnleyndina. Vonandi er ekki að renna upp nýtt skeið hefndarréttlætinga.

Vernd meintra fórnarlamba

Okkar örsmáa íslenska samfélag hefur á liðnum misserum mátt fylgjast með nafnlausum aðförum að nafngreindum einstaklingum. Kunnum leikara var fyrirvaralaust vikið úr starfi. Þjóðþekktur stjórnmálamaður „brenndur á báli“ víðtækrar fordæmingar. Sumum atgöngum hefur verið stýrt af duldum einstaklingum. Fámenn samfélög eru mun viðkvæmari fyrir slíkum vinnubrögðum en fjölmenn. Nafnleysið hefur verið réttlætt með nauðsyn á vernd. Það er ekki sannfærandi, ekki hvað síst þegar um marga meinta brotaþola er að ræða. Þessi mál eiga lítið sameiginlegt með uppljóstrurum, sem komist hafa yfir mikilvæg leynigögn sem skipta almenning máli. Því betur er nafnlaus framburður ekki tekinn gildur þegar réttarríkið fær að virka, nema í sérstökum réttarlega samþykktum tilfellum. Réttarkerfið tekur ekki mark á ásökunum sem kunna að vera uppspuni einnar manneskju. Það er sjaldan síðasta úrræði fólks að ljúga til um staðreyndir, hvort heldur sem eru konur eða karlar. Það er því að sumra mati siðleysi að dæma einstaklinga til opinberrar aftöku á grunni hulinna heilinda.

Meðalhófið

Skyldi mælikvarði meðalhófs vera hafður í heiðri þegar meintir misgjörðamenn eru dæmdir af dómstóli götunnar? Eru kynferðisleg áreitni og káf svo alvarlegir glæpir að um þá gildi ekkert meðalhóf? Er það eins með fyrrnefndan ágang og meinsemi eins og morð, að þau fyrnist aldrei? Skyldi slíkt réttarfar mega kallast réttlátt? Hér er ekki verið að fjalla um íslenskt réttarfar, heldur dómstól götunnar, sem kallaður hefur verið til. Sá dómstóll fær ekkert að vita um misgjörðirnar annað en að þær hafi verið alvarlegar. Þó að ekki sé um nauðgunartilraun eða þaðan af verra að ræða. Áreitni er hvimleið og lítt verjandi, þó ekki þurfi hún endileg að valda viðkomandi miklum varanlegum eftirköstum. Hún er bæði huglæg og hlutlæg, því mælikvarðinn er líka einstaklingsbundinn. Dómur almennings sem meintur misgjörðamaðurinn fær, gerir þar engan greinarmun. Hann er kategórískur. Á myrkum miðöldum Íslandssögunnar voru snærisþjófar dæmdir til Brimarhólms og konum drekkt fyrir meint framhjáhald. Það þykja okkur sem nú lifum óréttlátir, ofstopa- og kúgunarfullir dómar. Á okkar tíð verður dómi götunnar ekki áfrýjað. Refsingin er einföld og grimm. Útlegð úr mannlegu samfélagi – opinber aftaka.