Hlutverk okkar sendiherranna er að kynna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við höfum haldið yfir 300 kynningar um land allt. 

Í ljósi umfjöllunar síðustu daga um hatursorðræðu þingmanna í garð fatlaðs fólks blöskrar okkur. Að 10 % þeirra þingmanna sem stjórna landinu okkar skuli leyfa sér að láta svona ljót orð falla er til háborinnar skammar og er okkur nóg boðið. Þessi orðræða er í algjörri andstöðu við þau réttindi fatlaðs fólks sem samningurinn kveður á um. 

Í 8. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um vitundarvakningu. Þar kemur meðal annars fram að aðildarríkin skuldbindi sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að vekja þjóðfélög til vitundar um fatlað fólk og auka virðingu fyrir réttindum þess og mennsku. 

Það þarf að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, m.a. þeim sem heimfæra má til kyns og aldurs, áöllum sviðum mannlífs. 

Það þarf að auka vitund um getu og framlag fatlaðs fólks til samfélagsins og stuðla að jákvæðri ímynd fatlaðs fólks og efla vitund í samfélaginu um málefni þess.

Það þarf að gera áætlanir um fræðslu sem lýtur að vitundarvakningu um fatlað fólk og réttindi þess.  

Miðað við þá atburði og orðræðu sem þingmennirnir sex tóku þátt í hafa þeir brotið gróflega á rétti fatlaðs fólks, samningi Sameinuðu þjóðanna og eru ábyrgir fyrir grófri hatursorðræðu í okkar garð.  Við krefjumst þess að þeir segi tafarlaust af sér og víki af Alþingi Íslendinga.  

Það er kominn tími til að hlusta á fatlað fólk og virða mannréttindi og mennsku okkar til jafns við ófatlað fólk. Nú reynir á þingfólk að sýna það að verki. 

Sendiherrar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 

Gísli Björnsson

Ína Valsdóttir

Þorvarður Karl Þorvarðsson 

Skúli Steinar Pétursson 

María Þ. Hreiðarsdóttir 

Þórey Rut Jóhannesdóttir