Það hefur tekið of langan tíma að vinda ofan af óheilbrigðu eignarhaldi á bankakerfinu. Lengst af eftir fjármálahrunið voru bankarnir að stórum hluta óbeint í eigu slitabúa, sem var afar óæskilegt fyrirkomulag og stuðlaði að óhagkvæmni í rekstri þeirra, en síðustu ár hefur ríkissjóður – í gegnum eignarhald sitt á Landsbankanum og Íslandsbanka – verið eigandi að meirihluta fjármálakerfisins. Nú stendur hins vegar til að hefja tímabært söluferli eftir að fjármálaráðherra féllst á tillögu Bankasýslunnar um sölu á Íslandsbanka – óvíst er hversu stór hlutur verður seldur í fyrsta kasti – í gegnum almennt útboð og skráningu á markað. Áformin, sem eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og formenn flokkanna hafa lýst yfir stuðningi við, eru sett fram þegar markaðsaðstæður eru hagfelldar og söluandvirðið gæti nýst til að minnka lánsfjárþörf ríkissjóðs.

Engin vestræn þjóð hefur talið það skynsamlega ráðstöfun að binda mikla fjármuni skattgreiðenda í bankarekstri. Það kemur ekki til að ástæðulausu enda fylgir því óumdeilanlega veruleg áhætta. Eignarhald íslenska ríkisins á fjármálafyrirtækjum er hið langsamlega umfangsmesta sem þekkist í Evrópu. Hlutur ríkissjóðs í eigin fé Íslandsbanka og Landsbankans, sem nemur um 370 milljörðum, er hátt í 15 prósent af landsframleiðslu en í öðrum löndum – Bretlandi, Hollandi, Noregi, Grikklandi, Írlandi og Belgíu – er hlutfallið um 1 til 5 prósent. Ef það tækist að selja hlutina á bókfærðu verði, sem er þó harla ólíklegt eins og sakir standa, væri unnt að lækka skuldir ríkisins um þriðjung. Það munar um minna, ekki hvað síst þegar hætta er á því að hröð skuldasöfnun hins opinbera vegna kórónakreppunnar muni leiða til hærri skatta og minni hagvaxtar í framtíðinni.

Hjá sumum stjórnmálamönnum reynist aldrei vera góður tími að selja banka.

Frá því að tillaga Bankasýslunnar leit dagsins ljós hafa innlend hlutabréf hækkað í verði um 10 prósent. Það er góðs viti og ætti að draga úr áhyggjum af því að í aðdraganda skráningar bankans, þar sem mögulega fjórðungshlutur verður seldur, þurrkist upp fjármagn frá öðrum fjárfestingarkostum á markaði. Þá hefur gengi bréfa Arion banka aldrei verið hærra, eða sem samsvarar 90 prósent af bókfærðu eigin fé, sem gefur fyrirheit um að ágætis verð kunni að fást fyrir Íslandsbanka. Ljóst er að Bankasýslan og ráðherra hafa væntingar um að almenningur, sem í ört vaxandi mæli er farinn að gera sig gildandi á markaði eftir hlutafjárútboð Icelandair, muni koma að útboði bankans með myndarlegum hætti. Þátttaka lífeyrissjóða og erlendra fjárfestingarsjóða á hins vegar eftir að skipta sköpum en slíkir fjárfestar, sem kunna að setja sig upp á móti því að vera minnihlutaeigandi á móti ríkinu, munu án efa kalla eftir skýrum svörum um hvernig ríkið hyggist í framhaldinu halda áfram að minnka hlut sinn.

Hjá sumum stjórnmálamönnum, sem setja það ekki fyrir sig að almenningur sé í fremstu víglínu þegar kemur að mögulegum útlánatöpum bankanna, reynist aldrei vera góður tími að selja banka. Stundum gleymist að ríkið eignaðist bankana, fyrst Landsbankann og síðar Íslandsbanka, á grundvelli neyðarsjónarmiða. Það hefur aldrei staðið til, hvorki hjá þessari ríkisstjórn né öðrum, að ríkið yrði með meirihluta fjármálakerfisins í fanginu til frambúðar. Við eigum þess vegna að hefja þá vegferð að draga skipulega úr eignarhaldinu – og þó fyrr hefði verið.