Mikið hefur þjóðfélag okkar breyst hratt undanfarið. Ég meina, hverjum hefði dottið í hug fyrir ári síðan að fólki myndi standa stuggur af grímulausum(!) manni sem gengur inn í banka? Svo er það húmorinn, sem virðist á hraðri útleið. Engum má lengur gera grín að, því allir virðast allt í einu tilheyra einhverjum hópi sem þarfnast verndar. Ekkert má gagnrýna, ekki einu sinn í gríni, án þess að vegið sé að æru heilu þjóðfélagshópanna. Þeir sem beinlínis starfa við gagnrýni mega fara að vara sig. Gagnrýnandinn sem ætlar að gefa enn einni ofurhetjukvikmyndinni, sem fjallar ekki um neitt, eina stjörnu þarf að passa sig að vega ekki að starfsheiðri þeirra sem lögðu nótt við nýtan dag við gerð myndarinnar.

Fókusinn á kyn eða kynþátt gerir það að verkum að einstaklingurinn sjálfur skiptir ekki lengur máli. Nú auglýsir Þjóðleikhúsið eftir nýjum leikverkum, sem reyndar þurfa að vera samin af konum. Óskarsverðlaunamyndirnar Shakespeare in Love og Tootsie, þar sem aðalpersónurnar neyddust til þess að skipta um kyn til að fá störf við hæfi í leiklistarbransanum, hafa ekki verið stjórnendum Þjóðleikhússins ofarlega í huga. Þá virðist ekki vera þörf á handritum frá öllum hinum kynjunum.

Og nú má einn vinsælasti sjónvarpsþáttur síðustu áratuga ekki lengur vera í beinni útsendingu, allt vegna þess að einn ungur maður gat ekki hamið skap sitt í leikslok. RÚV var nær að hafa ekki seinkun á útsendingunni. Öllu er snúið á hvolf og almenn skynsemi virðist sjaldgæfari en knattspyrnumaður í svörtum takkaskóm. Enginn bendir á að keisarinn er ekki í neinum fötum.