Undanfarið hefur verið nokkurt írafár vegna verktakasamnings dómsmálaráðherra við lögmann og fyrrverandi hæstaréttardómara, þar sem lögmaðurinn tekur að sér það verkefni að greina málsmeðferðartíma í refsivörslukerfinu, frá því að rannsókn lögreglu hefst og að upphafi afplánunar, auk viðbragða af ýmsu tagi sem miði að því að stytta þennan tíma. Í samningnum, sem Fréttablaðið hefur birt í heilu líki, er verkþáttum lýst, svo sem styttingu boðunarlista Fangelsismálastofnunar og greiningu á málsmeðferðartíma og einstökum lagabreytingum.

Tilgreint er að gert sé ráð fyrir að unnið skuli að samantekt á upplýsingum um málsmeðferðartíma í einstökum brotaflokkum, hjá lögreglu, ákæruvaldi og fyrir dómi. Þá skuli safnað hugmyndum og tillögum sem komið geta að gagni við að bæta skilvirkni réttarvörslukerfisins. Þetta fari fram með samtölum við lögmenn sem vanir eru meðferð sakamála. Að síðustu er svo gert ráð fyrir tillögum um úrbætur.

Keppikefli stjórnvalda á hverjum tíma hlýtur að vera að réttarvörslukerfið sé skilvirkt. Sömuleiðis hefur margoft komið fram að málsmeðferðartíminn frá upphafi rannsóknar sakamáls þar til málið hefur verið til lykta leitt, hvort sem er með niðurfellingu máls, sýknu eða sakfellingu, sé of langur.

Nýlega var í Landsrétti þinghald í síðasta sakamálinu sem tengist efnahagshruninu, ríflega tólf árum síðar.

Brotaþolar hafa ítrekað kvartað undan hversu langur tími líður þar til niðurstaða fæst um sekt eða sýknu meints geranda.

Ein af meginreglum sakamálaréttarfars er að hraða skuli meðferð máls eins og kostur er og tekur það hvort tveggja til mála í rannsókn, ákæruferlis og meðferðar fyrir dómi. Í því eru fólgin mannréttindi, hvort tveggja þeirra sem bornir eru sökum og þeirra sem mögulega hefur verið brotið gegn að niðurstaða máls sé fengin eins fljótt og verða má. Í upphafsákvæði laga um fullnustu refsinga segir að markmið þeirra sé að fullnustan fari fram með öruggum og skilvirkum hætti.

Þannig er ljóst að löggjafinn ætlast til að refsivörslukerfið í heild sé sem skilvirkast. Á lista þeirra sem bíða afplánunar voru 213 árið 2009. Í lok síðasta árs taldi listinn 638. Meðal þeirra eru sjálfsagt þeir sem hafa bætt sitt ráð, stofnað heimili og eignast fjölskyldu. Að því kemur svo að þeir verða lokaðir inni og betrunin, sem þeir höfðu sjálfir staðið fyrir, unnin fyrir gýg.

Það er því að öllu samanlögðu þarft verk að vinna að bættri skilvirkni í þessum málum.

Ljóðurinn á málinu var hins vegar sá að lögmaðurinn sem upphaflega var valinn til verksins er umdeildur. Án þess að tekin sé afstaða til þess, fer ekki hjá því að móttökur við afrakstri vinnunnar hefðu litast af því atriði. Það virðist líka hafa verið mat ráðherrans og lögmannsins þar sem annar lögmaður hefur nú tekið við verkefninu. Eftir stendur að þessi farvegur er sérkennilegur. Ástæða er til að efast um að verkið sé á færi eins manns, með 100 klukkustunda vinnuframlagi.

Þarna var dauðafæri að setja málið í umfangsmeiri og faglegri farveg.