Í réttarríkishugtakinu í sínum víðasta skilningi felst að samfélög skuli lúta sameiginlegum og almennum lögum sem skuli gilda jafnt um valdhafana sem aðra og séu ekki byggð á geðþóttavaldi. Lögin verða að vera framkvæmanleg, skiljanleg, aðgengileg, framvirk og almenn. Þá verður að tryggja aðgengi borgaranna að réttlátri málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum.

Öryggi almennings verður einvörðungu tryggt í lýðræðisríkjum þar sem reglur réttarríkisins eru í heiðri hafðar. Þær reglur verður að virða sama hve alvarlegt ástand kann að ríkja. Neyðarástand réttlætir þannig ekki að farið sé út fyrir mörk réttarríkisins.

Vegna COVID-19 faraldursins hafa ríki um allan heim gripið til ýmissa neyðarúrræða til að hægja á útbreiðslu veirunnar og tryggja öryggi almennings. Í því skyni hafa stjórnvöld tekið ýmsar ákvarðanir er eiga sér ekki hliðstæðu, allt frá hertu lögregluvaldi til smitrakningarforrita. En jafnvel þótt almennt sé viðurkennt að á svo viðsjárverðum tímum gangi heildarhagsmunir framar einstaklingshagsmunum, þá verður að stíga varlega til jarðar. Lýðræði, mannréttindi og réttarríkið eiga þegar undir högg að sækja og veruleg hætta er á að mannréttindi verði fótum troðin í skjóli veirunnar.

Þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til þurfa eftir sem áður að rúmast innan ramma laganna. Þá verður að gera þá kröfu að slíkar aðgerðir séu gagnsæjar og tímabundnar, aukinheldur sem uppfylla þarf almennar kröfur um nauðsyn og meðalhóf. Ekki síður verða settar reglur að vera skiljanlegar, framkvæmanlegar og almennar.

Samkvæmt sóttvarnarlögum nr. 19/1997 fer heilbrigðisráðherra með vald til að setja reglugerðir og mæla fyrir um opinberar sóttvarnaráðstafanir og er ekki bundinn af tillögum sóttvarnarlæknis þar að lútandi. Tilmæli og leiðbeiningar sóttvarnarlæknis eða annarra stjórnvalda verða þannig að taka mið af þeim reglugerðum og öðrum réttarheimildum sem í gildi eru um sóttvarnir en ekki á skjön við þær.

Jafnvel þó ótvítrætt sé að heilbrigðisráðherra og sóttvarnarlæknir hafi skýrar valdheimildir til að beita opinberum sóttvarnarráðstöfunum samkvæmt sóttvarnarlögum þá verður við beitingu þeirra valdheimilda að taka tillit til þeirra hagsmuna sem ráðstafanirnar bitna á og gæta þar meðalhófs. Á það meðal annars við um upplýsingaöflun við smitrakningu en telja verður vafasamt að uppfletting á greiðslukortafærslum borgara án dómsúrskurðar samræmist vernd friðhelgis einkalífs og reglum um nauðsyn og meðalhóf.

Vissulega verður að beita nauðsynlegum úrræðum gegn faraldrinum en þær aðgerðir verða að vera hóflegar, þeim verður að vera markaður ákveðinn tímarammi og þær verða að vera teknar á lýðræðislegan hátt. Lýðræði, mannréttindi og réttarríkið eru ekki andstæða við vernd og öryggi almennings, heldur til tryggingar. COVID-19 réttlætir ekki inngrip í hvað sem er.

Höfundur er formaður Lögmannafélags Íslands.