Getur verið, eins og haldið er fram í bókinni Gjaldeyriseftirlitið, að upphaf málaferla Seðlabankans gegn Samherja megi rekja til þess að starfsmaður Kastljóss var á þorrablóti fyrir austan og ræddi þar yfir súrsuðum hrútspungum við einhvern sem taldi að Samherji væri að svindla á karfasölu? Ef svo er þá væri það efni í súrrealíska gamanþætti, ef það væri ekki jafn grafalvarlegt og raun ber vitni. 

Í kjölfar hrunsins voru handhafar ákæruvalds og eftirlitsaðilar undir þrýstingi frá stjórnmálamönnum, álitsgjöfum og fjölmiðlum um aðgerðir. Í slíku andrúmslofti reynir mjög á grundvallarreglur réttarríkisins. Þeim er ætlað að vernda alla þegna landsins og eru miklu mikilvægari heldur en tímabundin vandamál á gjaldeyrismarkaði svo dæmi sé tekið. Það er enginn vandi að virða reglur réttarríkisins þegar ekkert bjátar á, en það reynir á þegar samfélagið fer á hliðina. Þegar Seðlabankinn, FME og sérstakur saksóknari héldu blaðamannafund vegna Aserta málsins brá mörgum í brún. 

Þar var ákært, dæmt og refsað í beinni útsendingu. Síðar kom í ljós að ekki stóð steinn yfir steini, en fjöldi saklausra manna varð fyrir skaða. Fyrir það hefur ekki verið svarað. Samherjamálið er mjög alvarlegt og Seðlabankinn hefur farið fram af miklu gáleysi. Húsleitin fór fram í samstarfi við Ríkisútvarpið (sama gerðist í tilfelli Vinnslustöðvarinnar) og skýringar bankans á gangi málsins veiklulegar. Þessi meðferð valds getur ekki staðið óátalin, aðgerðarleysi er sama og samþykki. Jafnframt má minna þá á sem fara með vald að það er ekki líklegt til árangurs að vinna með Ríkisútvarpinu, spyrjið bara konuna sem rak Sjanghæ á Akureyri.