Fyrirtækið Samherji er í eigu dugmikilla manna og hugkvæmra sem hafa verið röskir við að tileinka sér nýja tækni í sjávarútvegi og innleiða í starfsemi sinni með góðum árangri. Nú virðast þeir ætla að færa enn út kvíarnar, í krafti auðs og valda, og gera tilraun til að innleiða nýjungar í íslenskt réttarkerfi, sem felst í stuttu máli í því, að þegar aðili þykir hafa orðið uppvís að vafasömum viðskiptaháttum og jafnvel hugsanlegum lögbrotum, og rannsókn er hafin í kjölfar uppljóstrana í fjölmiðlum – þá tekur viðkomandi aðili rannsóknina einfaldlega í sínar hendur, ræður til verksins sérstaka lögmannsstofu, sem hann treystir; stofan kveður síðan upp sinn úrskurð, sem dómstóll væri, og álitið er svo birt með viðhöfn í fjölmiðli í eigu viðkomandi aðila, og sem hann treystir.

Samherji hefur nú birt það álit norskrar lögmannsstofu að ekkert hafi verið saknæmt eða óeðlilegt við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu – má helst skilja að allt hafi þar verið rekið með tapi og helst megi jafna umsvifum fyrirtækisins þar í landi við þróunaraðstoð. Þetta álit er birt í Morgunblaðinu, sem virðist ígildi Lögbirtingablaðsins í huga Samherjamanna – um leið og þeir eru átaldir sem létu í ljós það álit að lög kynnu að hafa verið brotin með mútugreiðslum, og fyrirtækið hafi sölsað undir sig afnot af auðlindum Namibíumanna.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að enn hefur íslenskt réttarkerfi ekki verið einkavætt með þessum hætti. Hér á landi kaupir maður sér ekki sýknudóma. Málið er enn til rannsóknar hjá þar til bærum aðilum og keypt álit lögmannsstofu – þótt norsk sé – hefur ekki meira gildi í málinu en hvert annað verjandaplagg. Enn bíðum við fregna af raunverulegri rannsókn þar til bærra aðila á starfsemi Samherja í Namibíu. En nokkuð er biðin farin að gerast drjúg.