Um aldir höfum við verið að kyngera tungumálið. Nú er mál að linni og hefði svo sannarlega mátt gerast mun fyrr. Við verðum að átta okkur á að við lifum á víðsýnum og umburðarlyndum tímum þar sem við verðum að tala til allra. Einmitt þess vegna er ákaflega mikilvægt að tala og skrifa hlutlaust.

Sú sem þetta skrifar hefur ákveðið sem blaðamaður að fylgja þessu og forðast orð í karlkyni eins og heitan eldinn, en eins og alkunna er þá er tungumálið illa smitað af karlrembu, eiginlega útbíað. Úbs, afsakið mig, sú sem þetta skrifar ruglaðist illilega og ætlaði að segja að hún hafi „ákveðið sem blaðakona“ … Nei, það gengur ekki heldur, það að tala í kvenkyni er of mikil afstaða og kann að særa einhverja. Og við viljum engan (afsakið, ég meina „enga“) særa af því við viljum vera góð og breyta rétt. Orðum þetta þannig: „Sú sem þetta skrifar hefur ákveðið sem blaðamanneskja að tala rétt mál sem enga særir.“ Er þetta ekki alveg örugglega rétt orðalag? Það hljómar allavega ágætlega hlutlaust en gæti samt stuðað einhverja, sem er vitanlega alls ekki meiningin.

Það er svo fjarska auðvelt að fara út af réttri braut og það viljum við ekki með nokkru móti gera. Við gætum móðgað einhverja og fengið yfirhalningu á samfélagsmiðlum. Varla er hægt að hugsa sér verra hlutskipti en einmitt það, sjálfsmyndin væri hrunin og ómögulegt að láta sjá sig innan um aðra. Við viljum að öllum líki vel við okkur. – Eða á að segja: „að öll líki vel við okkur“? Ég verð að viðurkenna sem blaðamanneskja að það er ótrúlega erfitt að átta sig á því hvernig best er að orða hlutina, en það á náttúrlega ekki að vera auðvelt að ganga rétttrúnaðarveginn. Það kostar blóð, svita og tár.

Allir verða að vanda sig þegar kemur að því að tala mál sem nær til allra og særir engan. Afsakið aftur – ég meinti að: „Öll verða að vanda sig þegar kemur að því að tala mál sem nær til allra og særir enga.“ Er ég ekki núna að orða þetta rétt? Ég held að ég hafi loksins náð þessu. Ef ekki þá vona ég allavega að þeir sem lesa taki viljann fyrir verkið. Fyrirgefið enn og aftur – ég meinti: „Ég vona að þau sem lesa taki viljann fyrir verkið.“

Mig langar virkilega til að standa mig í því að skrifa og tala rétt mál sem móðgar engan. Afsakið, ég meinti „móðgar enga“. Hljómar það ekki örugglega rétt?

Nú er ég orðin svo illilega áttavillt í íslenskunni að ég þarf að hætta þessum skrifum og hvíla mig.