Stjórnvöld víða um heim herða nú af miklum móð aðgerðir vegna nýs afbrigðis kórónavírussins, sem er að sögn læknisins sem uppgötvaði það fremur vægt.

Hinn ríki vilji taugabilaðra stjórnvalda til að takmarka frelsi þegnanna fer stigvaxandi og er fyrir löngu orðinn ógnvænlegur. Sömuleiðis er óhuggulegt hversu lítil mótstaða er gegn lítt skiljanlegum aðgerðum. En kannski er viðbragðsleysið ekki svo einkennilegt. Um leið og höft hafa verið sett á fólk þá fullyrða stjórnvöld að þau séu tímabundin og eingöngu gerð með hagsmuni og velferð almennings í huga. Svo líður tíminn og aðgerðir eru framlengdar vegna þess, er almenningi sagt, að hættan er ekki liðin hjá, hún sé jafnvel að magnast. Því er síðan bætt við að jafnvel þótt hættan væri óveruleg þá væri engan veginn rétt að slaka á höftum því hugsanlega geti eitthvað verulega slæmt gerst í nánustu framtíð.

Nú er rætt um að skylda fólk til að fara í bólusetningu og refsa því hlýði það ekki. En á sama tíma og stjórnvöld víða um heim predika um hina gríðarlegu nauðsyn þess að einstaklingar séu tvíbólusettir og hafi fengið örvunarskammt þá telja þau það samt ekki nægja til að fólk endurheimti frelsi sitt. Ef þetta viðhorf á að vera ríkjandi blasir um leið við að hægt er að halda fólki í höftum nánast endalaust. Með reglulegu millibili er síðan kvakað að þetta sé hinn nýi raunveruleiki sem fólk þurfi að aðlagast. Stjórnvöld telja sig vita hvað þau eru að gera, segjast hafa fundið hina réttu lausn og breiða út verndandi móðurfaðm. Hið dapurlega er að margir virðast tilbúnir til að leita skjóls þar. Um leið er öll andstaða við áherslur stjórnvalda flokkuð sem stórhættuleg.

Í þessu sambandi er rétt að vitna í nýútkomna bók, Þjóðarávarpið, en þar segir á einum stað: „Í óttaástandi getur fasismi því birst sem hin rétta lausn vandans, og þannig lagað getur virst notalegt að hjúfra sig upp við hann. Það er að segja framan af, þegar tekist er á við aðsteðjandi ógn, en síðar kárnar gamanið gjarnan.“ Í sömu bók segir höfundur að samkvæmt þróun liðinna áratuga megi „gera ráð fyrir að fasismi framtíðarinnar birtist frekar í mjúkum móðurfaðmi en í herskáum hreyfingum.“

Höfundur þessara orða er Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, frjálslyndur maður sem ann lýðræði og frelsi, eins og við ættum öll að gera. Viðvaranir hans ríma nánast hrollvekjandi við samtíma okkar.