Þegar þetta er skrifað er ég andvaka út af ofsaveðri sem rífur í trampólínið í garðinum.

Upp rifjast óveðrið í gamla daga sem var í minningunni notalegt. Rafmagnið farið af húsinu eins og alltaf þegar blés almennilega og þakplötur að fjúka. Fjölskyldan sat í myrkvaðri stofunni og spilaði við kertaljós. Það hefði allt eins getað verið í baðstofu á nítjándu öld. Ég man það voru ellefu vindstig. Sú tala greyptist í huga mér. Nú veit ég bara að veðrið er appelsínugult.

Einhverra hluta vegna tók ég ekki niður trampólínið. Lét nægja að vefja rólu á snúrustaurnum um það. Erfitt að trúa að slíkt haldi þegar það er sem húsið sjálft sé að rifna af grunninum.

Það er eitthvað fornt við óveður. Þægindin sem við búum við vekja þá tilfinningu að manntegundin Homo Bureaucraticus hafi fyrir löngu klætt veðrið af sér. Svo fer það allt í einu að guða á glugga eins og draugar og óvættir gerðu fyrr á öldum.

„Og öll raflýsingin!“ sagði skáldið Gyrðir Elíasson í viðtali sem ég átti við hann fyrir bókamessuna í Frankfurt. Hann lýsti því að fyrir afa sínum og ömmu á Borgarfirði eystra hefðu draugasögur og þjóðsögur verið ótrúlega lifandi – ekki bara sögur á blaði. „Amma var mjög myrkfælin og veröldin breyttist hjá þeim á haustin þegar farið var að dimma.“

En sá heimur steyptist með raflýsingunni. Þegar veröldin lýstist upp hvarf myrkfælnin. Gyrðir tók þó fram að tilveran væri margbrotin. „Ég veit ekki hvernig maður væri kominn upp á Kjöl að vetrarlagi í skálanum í Hvítárnesi, best að fullyrða sem minnst um það.“

Trampólínið storkar enn um sinn máttarvöldunum. Höfuðborgarsvæðið er raflýst. En er það ekki tímaskekkja að á bæjum víða um land séu draugar og forynjur enn að guða á glugga?