Í grein í Frétta­blaðinu 15.7. 2022 benti ég á þá stað­reynd að miklu skeikar á niður­stöðum árs­reiknings Vísis hf. annars vegar og sölu­verð­mætis fyrir­tækisins hins vegar. Jafn­framt leiddi ég líkum að því að þessi skekkja hafi orðið til vegna þess að fyrir­tækið hafi fengið veru­legan af­slátt af veiði­gjöldum (les: styrk úr ríkis­sjóði) árið 2013. Af­slátt sem það hefði ekki fengið hefði verið meira sam­ræmi milli raun­veru­leikans og þeirrar myndar sem dregin er upp af af­komu og stöðu fé­lagsins í árs­reikningi.

Lögum sam­kvæmt eru reikningarnir endur­skoðaðir. Endur­skoð­endurnir gefa plagginu eftir­farandi heil­brigðis­vott­orð:

„Samkvæmt efnahagsreikningi var eigið fé félagsins neikvætt um EUR 12,8 milljónir og tap ársins nam EUR 1,07 milljónum. ... Stjórnendur félagsins telja að rekstur félagsins standi undir skuldbindingum þess og það sé því rekstrarhæft.“

Annar tveggja endur­skoðenda Vísis hf. les mér síðan pistilinn í Frétta­blaðinu 21.7. 2022. Í fyrsta lagi sé laga- og reglu­um­hverfi árs­reikninga­gerðar og endur­skoðunar svo traust að það sé ekki á færi hag­fræði­prófessora að bera brigður þar á. Í öðru lagi sé munurinn á sölu­verði fyrir­tækisins Vísir hf. annars vegar og verð­mætis eigin­fjár þess hins vegar til­kominn fyrir þá sök að ó­heimilt sé að færa verð­mæti ó­efnis­legra réttinda (e. Intangi­ble assets) til bókar. Í þriðja lagi telur hann að greiðsla val­kvæðra skatta­styrkja úr ríkis­sjóði á borð við af­slátt af veiði­gjöldum á grund­velli gallaðrar mælingar á af­komu sé full­kom­lega eðli­leg.

Elli­líf­eyris­þegar og út­gerðir

Af­greiðum síðasta at­riðið fyrst. Fái elli­líf­eyris­þegar of­greiddan líf­eyri á grund­velli skakkra upp­lýsinga er um­svifa­laust gerð krafa um endur­greiðslu. Ríkis­sjóður telur sér ó­heimilt að láta fyrri á­kvörðun standa sé hægt að rök­styðja lækkun fram­lags. Í til­felli lækkunar veiði­gjalds­greiðslu Vísis var á­kvörðun byggð á gölluðum upp­lýsingum. Gallann þekkja allir sem reynt hafa að lesa árs­reikning út­gerðar­fyrir­tækis. Sjávar­út­vegs­ráðu­neytið hefur öll gögn í höndum sem nauð­syn­leg eru til að leið­rétta niður­stöðu árs­reiknings þannig að hún endur­spegli raun­veru­leikann. Því skyldi stöndugt sjávar­út­vegs­fyrir­tæki hafa aðra stöðu gagn­vart ríkis­sjóði sem styrk­veitanda en elli­líf­eyris­þeginn? Jafn­ræðis­reglan gefur skýra vís­bendingu um að endur­skoðandinn þurfi að endur­skoða af­stöðu sína hvað þetta at­riði varðar.

Eins og í út­löndum?

Víkjum þá að hinni traustu um­gjörð árs­reiknings- og endur­skoðunar. Endur­skoðandinn segir:

„Um endur­skoðun og endur­skoð­endur gilda strangar reglur og kröfur auk gæða­eftir­lits. Þá vísast einnig til lög­mæltra vinnu­pappíra sem við þurfum að út­búa til að sanna á­gæti vinnu­bragða okkar.“

Endur­skoðandinn segir það enn styrkja um­gjörðina að reglurnar hér séu sam­bæri­legar eða eins og best gerist er­lendis. Það er því ekki úr vegi að skoða hvern dóm endur­skoðun og endur­skoð­endur fá t.d. í Eng­landi. Financial Reporting Council í Bret­landi skoðaði verk þar­lendra endur­skoðenda og sögðu veru­legra úr­bóta þörf í 25-50% til­fella þar í landi. Upp úr alda­mótum lagði eitt hinna fimm stóru al­þjóð­legu endur­skoðunar­fyrir­tækja upp laupana í kjöl­far að­komu sinnar að Enron skandalnum.

Endur­skoð­endur gamla Lands­bankans (PwC) greiddu á annan milljarð króna til að komast hjá mál­sókn vegna upp­á­skriftar á ranga árs­reikninga í að­draganda hrunsins. Þögn átti að ríkja um þann gjörning. Endur­skoð­endum bankanna sem féllu 2008 yfir­sást, viljandi eða ó­viljandi, um­fangs­mikil „skapandi reiknings­skil“ sem blésu eigin fé bankanna upp um 300 milljarða króna. Því er haldið fram í mín eyru að þessi „yfir­sjón“ hafi seinkað falli bankanna um­tals­vert með til­heyrandi kostnaði fyrir ís­lenskt sam­fé­lag.

Endur­skoðunar­fyrir­tæki eiga það líka til að blanda saman endur­skoðun og ráð­gjöf. Þetta tvennt fer illa saman og í­trekað hafa fjár­mála­eftir­lit krafist að­skilnaðar slíkrar starf­semi. Hér á landi hafa endur­skoðunar­fyrir­tæki jafn­vel blandað sér í um­ræðu um fyrir­komu­lag gjald­töku hins opin­bera af nýtingu auð­linda í al­manna­eigu og fremur komið fram sem al­manna­tengla­fyrir­tæki en sem ó­háðir og hlut­lausir sér­fræðingar. Spurning hvort það fari saman að sinna al­manna­tengslum annars vegar og endur­skoðun árs­reikninga hins vegar.

Erfitt er að fallast á það með endur­skoðandanum að lög og reglu­gerðir annars vegar og gæða­eftir­lit endur­skoðenda hins vegar tryggi há­gæða niður­stöður! Þvert á móti virðist full­kom­lega rétt­mætt að skoða verk og á­ritanir endur­skoðenda með gagn­rýnu hugar­fari, sér­stak­lega þegar stór fyrir­tæki sem greiða háar þóknanir eiga í hlut.

„Þessir ein­staklingar hafa skapað þá venju að hunsa skýr fyrir­mæli í 5. gr. árs­reiknings­laganna og hanga eins og hundar á roði á þröngri túlkun á á­kvæðum 26. greinar bók­halds­laganna“

Grund­vallar­regla snið­gengin

Þá að síðustu at­huga­semdinni. Í 5. gr. árs­reiknings­laga (l.nr.3/2006) er kveðið á um að árs­reikningur skuli gefa glögga mynd af af­komu, efna­hag og breytingu á hald­bæru fé. Í 2. máls­grein sömu greinar er þetta undir­strikað með því krefjast þess að ef á­kvæði laganna dugi ekki til að draga fram hina glöggu mynd skuli vikið frá á­kvæðum laganna og skal þá upp­lýst um frá­vikin. Þetta er á­réttað í 23. gr. bók­halds­laga (l.nr. 144/1994) en þar er kveðið á um að efna­hags- og rekstrar­reikningur skuli á kerfis­bundinn hátt til­greina eignir, skuldir og eigið fé hlutað­eig­andi auk heildar­tekna og heildar­gjalda.

Endur­skoðandi Vísis hf. vísar til 26. gr bók­halds­laga, en á­kvæði þeirrar greinar geta rekist á grund­vallar­reglu þá sem gefin er í 5. gr. árs­reiknings­laganna. Þetta á m.a. við regluna um færslu á ó­efnis­legum réttindum, en afla­heimildir falla í þann flokk, einnig við­skipta­vild, einka­leyfi og verð­mæti vöru­merkja. Afla­heimildir eru verð­mætustu „eignir“ út­gerðar­fyrir­tækja. M.v. að varan­legur kvóti sé seldur á 4.000 krónur þorsk­í­gildið er verð­mæti kvóta sem Vísir ráð­stafar milli 50 og 60 milljarðar króna, en ekki um 14 milljarðar króna eins og bók­fært er í árs­reikningi, dá­lag­leg dulin „eign“ þar á ferðinni.

Ör­fáir ein­staklingar bera á­byrgð á endur­skoðun reikninga ís­lenskra út­gerðar­fyrir­tækja. Þessir ein­staklingar hafa skapað þá venju að hunsa skýr fyrir­mæli í 5. gr. árs­reiknings­laganna og hanga eins og hundar á roði á þröngri túlkun á á­kvæðum 26. greinar bók­halds­laganna. Sam­kvæmt 5. gr. árs­reiknings­laganna er endur­skoð­endum og stjórn­endum fyrir­tækja bein­línis skylt að gera grein fyrir á­hrifum þess á efna­hags­reikninginn að með­höndla ó­efnis­leg réttindi með sama hætti og aðrar eignir fyrir­tækisins. Það má gera í at­huga­semdum þannig að þjálfaður lesandi (og veit­endur skatta­styrkja frá hinu opin­bera) geti með ein­földum hætti áttað sig á lík­legu raun­veru­legu verð­mæti fyrir­tækisins. En slíkt verk­lag fellur ekki undir ís­lenska endur­skoðunar­hætti eins og fyrr segir! Ég skal ekki ganga svo langt að full­yrða að um lög­brot sé að ræða, en get ekki séð betur en að gengið sé með skýrum hætti gegn inn­taki og grunn­hugsun árs­reiknings­laganna. Það getur ekki talist gott vega­nesti í endur­skoðun!

Endur­skoðandinn lætur sér sæma að hafa niður­lægjandi orð um mig og mín skrif. Lesandi verður að meta hversu mark­tækar slíkar glósur eru. Sjálfur tel ég þær á­líka mark­tækar og niður­stöðu­tölur efna­hags­reikningsins sem hér hefur verið til um­fjöllunar.

Höfundur er hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.