Úthald og þrautseigja eru mikilvægir eiginleikar, sérstaklega á tímum eins og þessum, þegar tilveran er í biðstöðu. Nú er komið að þeim tímapunkti í baráttunni gegn COVID að hyggilegast er að draga andann djúpt og setja sig í úthaldsstellingar; tileinka sér stóíska ró. Bólusetningar eru hafnar og þeim miðar alveg sæmilega, þótt einhverjir vilji reyndar halda öðru fram. Óþolinmæði í þeim efnum er mjög skiljanleg því bólusetningar eru jú svarið við COVID. Þær munu hugsanlega dragast eitthvað á langinn. Engin ástæða er þó til að hella sér yfir stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld, sem eru að reyna að gera sitt besta í aðstæðum sem eru engin óskastaða. Þau hefðu örugglega mátt gera ýmislegt öðruvísi en ekkert þýðir að velta sér endalaust upp úr því. Aðalatriðið er að bóluefnin eru að koma, búið er að bólusetja flesta viðkvæmustu hópana og þjóðin virðist komin yfir það versta. Sem hlýtur að þýða að alls kyns takmörkunum verði aflétt í náinni framtíð, en eflaust í skrefum því sóttvarnalæknir landsins er varfærinn maður og ríkisstjórnin kýs að lúta handleiðslu hans.

Ástand eins og það sem þjóðin hefur búið við svo lengi reynir á og kallar ekki alltaf fram það besta í fólki. Leiður fylgifiskur COVID er önuglyndi og tortryggni í garð náungans ásamt þeirri hugsun að í COVID sé hver sjálfum sér næstur. Þannig hafa einhverjir blygðunarlaust reynt að lauma sér fram fyrir aðra í bólusetningarröðinni í krafti þess að þeir séu sérlega mikilvægir þjóðfélagsþegnar. Enn aðrir hafa dundað sér við að klaga náungann fyrir hin ýmsu sóttvarnabrot, sem í mjög mörgum tilvikum reyndust alls engin brot. Helst vildi maður losna við að búa í þjóðfélagi þar sem svona hlutir eru tíðkaðir.

Á dögunum birtust í sjónvarpsfréttum RÚV viðtöl við nokkra vegfarendur sem hneyksluðust ógurlega á því að nokkrir einstaklingar hefðu verið óánægðir með að vera skyldaðir á sóttvarnahótel og vildu fá að vera í sóttkví heima hjá sér. Þessa sjálfsögðu kröfu um að fá að vera í heimasóttkví flokkuðu vegfarendur sem frekju og forréttindablindu. Reiðiraddir hafa síðan heyrst segja að fólk geti ekki kvartað yfir því að vera sett á hótel í stað þess að vera heima hjá sér í sóttkví, það eigi þetta bara skilið enda hafi það alls ekki átt að vera að ferðast til útlanda.

Dómharka eins og þessi er ekki geðsleg. Engin tilraun er gerð til að setja sig í spor annarra. Á COVID-tímum ferðast fólk af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna vinnu, veikinda eða dauða ættingja. Sumir kjósa síðan að fara í frí til útlanda, með öllum þeim erfiðu og þreytandi kvöðum sem því fylgja. Engin ástæða er til að hella sér yfir það fólk með svívirðingum, stimpla það sem óvini og gera sjálfkrafa ráð fyrir að það sé staðráðið í að fara ekki eftir sóttvarnareglum.

COVID mun líða hjá og lífið nokkurn veginn komast í fyrra horf. Mótlæti getur laðað fram það besta í fólki, en einnig það versta – eins og COVID sýnir.