Lægra verður vart komist í lífinu en að þurfa krjúpa fyrir sveitarfélagi sínu og grátbiðja um fjárhagsaðstoð. Engu að síður er það veruleiki alltof margra í samfélagi okkar, ekki síst fyrrverandi fanga sem litla náð hljóta hjá atvinnuveitendum sem og öðrum refsiglöðum þjóðfélagsþegnum. Neyðina ættu sveitarfélög ekki að nýta sér heldur sinna þessu brotna fólki af alúð, með sanngirni og traust að leiðarljósi. Víða virðist pottur brotinn.

Einstaklingar sem óska eftir fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg þurfa að skila inn gögnum frá banka sínum um innborganir inn á reikninga sína. Að sögn fulltrúa borgarinnar er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að fólk sem vinnur svart fái fjárhagsaðstoð. Og þar gildir króna á móti krónu.

Til Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, leitaði nýverið fyrrverandi fangi, veikur maður sem ekki getur unnið jafnvel auðveldustu störf. Hann skilaði samviskusamlega innborgunaryfirliti en samkvæmt því fékk hann 82 þúsund krónur greiddar inn á reikning sinn í marsmánuði. Þrátt fyrir að um sé að ræða litlar greiðslur frá fjölskyldu og vinum, þ.e. lán til þess að þreyja þorrann, lítur Reykjavíkurborg á þetta sem tekjur og dregur frá rétti hans til fjárhagsaðstoðar fyrir aprílmánuð. Honum er þannig refsað fyrir það að þiggja lán og gerir borgin honum því erfiðara fyrir að greiða til baka. Einhver myndi kannski segja að sparkað væri í liggjandi mann.

Svör borgarinnar eru á þá leið að fái fólk greiðslur inn á reikning sinn frá öðrum en borginni sé viðkomandi ekki í brýnni þörf fyrir fjárhagsaðstoð þann mánuðinn. Og samkvæmt reglum borgarinnar þurfi að horfa á allar innborganir sem tekjur.

Jafnaðarmannaflokkur Íslands er í meirihluta borgarstjórnar ásamt vinstrihreyfingu sem einnig hefur í lögum sínum að berjast fyrir jöfnuði í samfélaginu. Ósagt skal látið hvort hinir flokkarnir tveir í meirihluta reyni að draga úr þessari baráttu en öllum ætti að vera ljóst að þessi aðferð til fjárhagsaðstoðar er ekki til þess fallin að stuðla að réttlátara samfélagi.

Að mati Afstöðu er það ekki félagsráðgjafa Reykjavíkurborgar að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi með því að lúslesa bankareikninga þeirra brotnu einstaklinga sem biðja um aðstoð og telja öll smálán sem tekjur. Vakni grunur hjá þeim um að viðkomandi sé að misnota kerfið er hægt að senda ábendingu til þar til bærra aðila sem málið rannsaka. Og ef Reykjavíkurborg ætlar að halda í þetta niðurlægjandi kerfi skal borgin virða rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og skoða hverja færslu í þaula til að ganga úr skugga um að þar sé raunverulega um tekjur að ræða.

Fyrirkomulagið sem er við lýði hjá Reykjavíkurborg gerir alla þá sem sækja um fjárhagsaðstoð að glæpamönnum sem þurfa svo að sanna að þeir hafi ekki brotið af sér. Þessu verður að breyta.

Höfundur er formaður Afstöðu félags fanga á Íslandi.