Það er varla til hræða hér á þessu landi sem ekki er orðin örþreytt og úttauguð á langvinnum slagsmálum við faraldurinn undanfarna mánuði. Þau hafa staðið fast að heilli meðgöngulengd með vonum og væntingum, vonbrigðum og bakslögum.

Líf fólks hér á landi hefur verið undir linnulitlum takmörkunum þennan tíma allan og svo er um heimsbyggðina alla.

Á grundvelli sóttvarnalaga hafa höft og hömlur verið lagðar á daglegt líf fólks, samskipti takmörkuð, fjöldatakmarkanir, tilmæli um takmarkaðar samgöngur, heimsóknabann á sjúkrastofnanir og dvalarheimili, aldraðir og sjúkir einangra sig, ótölulegum fjölda aðgerða og meðferða á heilbrigðisstofnunum landsins hefur verið frestað eða þær slegnar af. Skólahald er með gerbreyttu sniði. Grímuskylda í skólum og verslunum. Kvíði og ótti grefur um sig og svo má lengi telja.

Daglegt líf er allt úr lagi gengið.

Í upphafi var almennt litið svo á að um afmarkað, stutt tímabil væri að ræða og við gætum um frjálst höfuð strokið þegar voraði. Það auðveldaði að sætta sig við þær skorður sem daglegu lífi voru settar.

Svo hallaði sumri og syrta fór í álinn á ný. Enn dundu yfir þunglyndisleg skilaboð og ákvarðanir sóttvarnayfirvalda og veturinn fram undan. Þetta vissi ekki á gott.

Bera tók á fréttum af fólki sem missti tökin á tilverunni. Tilkynntum heimilisofbeldismálum fjölgaði, vísbendingar kviknuðu um aukna neyslu áfengis og augljóst var af fréttum að þráðurinn tók að styttast. Við vorum að þreytast á ástandinu og sumir við það að gefast upp. Fluttar voru og eru fréttir af fólki sem missir tök á tilverunni og rasar út á almannafæri, sjálfum sér og sínum til minnkunar, sem bendir til þverrandi þolinmæði og uppurins umburðarlyndis.

Fólk sem vinnur nú dögum saman heima finnur ekki sömu hvíldina heima fyrir. Heimili og vinnustaður runnin saman í eitt. Samskipti stirðna og léttvæg mál, sem auðvelt er að leysa, hlaupa í harðan hnút.

Vissulega vöktu fréttir af bóluefni von í líðandi viku. Ekki bara að virkni þess virðist með besta móti og framleiðsluferlar þess ættu að geta afkastað nægu magni bóluefnis. Heldur, og miklu frekar, að Íslendingum er, vegna samstarfs Evrópuríkja, tryggður aðgangur að því.

Helsta óvissan er þá hvenær hægt sé að hefja hér bólusetningu og þar með kveða niður faraldurinn fyrir fullt og allt og lífið komist í samt lag á nýjaleik.

Nú virðist allt benda til að ekki sé áhugi á að rýna sóttvarnaaðgerðir í miðjum klíðum. Það hefði þó verið tilefni til. En þegar faraldurinn verður að baki og litið verður í baksýnisspegilinn, verður ekki hjá því komist. Þá verður betur komið í ljós hverjar aukaverkanir þeirra voru. Fjárhagslega tjónið verður þá auðveldlegar mælt. Hitt tjónið, sem varð á lífi og heilsu, andlegri og líkamlegri, verður erfiðara að meta. Og nú hefur verið ákveðið að slaka til á ný. Það varð minna en allir þráðu. Á meðan vonum við að þráðurinn styttist ekki um of.