Borgaryfirvöldum hefur að stærstum hluta tekist að skapa fallegan og notalegan miðbæ. Þeim sem efast um þessa fullyrðingu skal bent á að ganga Skólavörðustíginn og neðri hluta Laugavegar. Þar er mannlíf með blóma og áberandi mikið ber á himinlifandi erlendum ferðamönnum. Þeim líður greinilega mjög vel á þessu svæði. Þarna eru göngugötur með fjölda verslana og veitingastaða, bekkir sem hægt er að tylla sér á og engin þreytandi bílaumferð. Sem sagt hinn fínasti miðbær. Samt eru ekki allir lukkulegir.

Einhverjir verslunareigendur í miðbænum eru nefnilega verulega ósáttir við þau örlög sín að þurfa að lifa í nútíma þar sem einkabíllinn fær ekki sama rými og áður. Þeir lifa í fortíðarþrá sem er algjörlega á skjön við raunveruleikann. Áhersla borgaryfirvalda á göngugötur er sú sama og á sér stað í fjölmörgum borgum erlendis þar sem markmið stjórnvalda er að skapa aðlaðandi miðbæ sem laðar til sín fólk.

Enn dynja þær í eyrum útvarpsauglýsingarnar frá aðgerðahópnum Björgum miðbænum þar sem varað er við fólskuverkum borgarstjórans, Dags B. Eggertssonar. Þar fer fremstur í flokki Bolli Kristinsson. Markmið samtakanna er að forða því að borgarstjóranum og félögum hans í meirihluta borgarstjórnar takist hið meinta ætlunarverk sitt að gjöreyðileggja miðbæinn með því að hafa þar göngugötur. Þessi „eyðileggingarstarfsemi“ borgarstjórans hefur farið fram hjá meginþorra landsmanna, enda er hún tilbúningur einn. Staðreyndin er sú að miðbærinn hefur mikið aðdráttarafl og þarf ekki á neinni björgun að halda.